145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Að komast út úr gömlu kerfi — mér finnst þetta snúast fyrst og síðast um að bændur beri ekki skarðan hlut frá borði. Við vitum að hér er láglaunastefna, þ.e. bændur eru yfir höfuð, auðvitað ekki allir, en sauðfjárbændur margir hverjir eru kannski ekki feitir af sínum rekstri. Mér finnst þetta snúast um að við sjáum til þess að minnsta kosti að kjör þeirra rýrni ekki á tímabilinu og að aðstæður þeirra til að halda búskap áfram verði það viðunandi að menn leggi bara ekki upp laupana. Það hlýtur að vera fyrst og síðast það sem þetta snýst um. Miðað við það, eins og ég skil þetta, eru einhver tiltekin svæði sem bændur gætu verið í hættu vegna þessa.

Ég tek undir með hv. þingmanni, ég skil eiginlega ekki af hverju fleirum var ekki hleypt að í upphafi. Fram kom í umræðunni í dag að það var svolítið lokað ferli að fara í gegnum þennan samning aftur, og þó með þeim töluverðu breytingum sem liggja fyrir, sem ég tel að hafi verið mistök til að reyna að ná fram þeirri sátt sem ég talaði um í máli mínu áðan. Það liggur alveg fyrir að sú sátt næst ekki ef við vinnum þetta í einhverjum smáum hópum og hvort sem það var vegna þess að verðlagsnefnd búvara var til og hér á að leggja niður eða hvað, það breytir ekki því hvað það í rauninni heitir, heldur það að ef samtal á sér stað með sem fjölþættustum hætti eru meiri líkur á að niðurstaða náist sem flestir geta sætt sig við. Við leiðum auðvitað aldrei saman öll sjónarmið, það er alveg ljóst, en við getum að minnsta kosti mæst á þeirri leið kannski að enginn fari verulega sár frá borði í því samtali. Það er alla vega tilraunarinnar virði.