145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:50]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég tók fram áðan er ég ekki mikill sérfræðingur í landbúnaðarmálum en mér finnst kjörið að koma hér upp og ræða þessi mál. Hvað varðar nýjar tillögur þá — ég veit það ekki. Það er nákvæmlega eins og fram kom í lok ræðu minnar að við þurfum að ræða þessi mál við alla hagsmunaaðila. Alla. Við gerð þessa frumvarps var ekkert samráð haft við neina nema Bændasamtökin og Matvælastofnun, sem sér um framkvæmd stefnunnar. Það er það sem mér þykir mest ámælisvert. Ég er alveg viss um, hv. þm. Haraldur Benediktsson, að ef við ynnum þessi mál í miklu meira samráði og samvinnu allra hagsmunaaðila, þar með talið almennings, væri hægt að finna út hvernig við getum minnkað styrki til landbúnaðar. Það er alveg á hreinu. Ég hef ekki kynnt mér landbúnaðarmál í Evrópu af neinu viti vegna þess að það er ekki á mínu forræði í mínum flokki, það eru aðrir sem hafa gert það. Hv. þingmaður nefndi hvernig gróðinn hefur farið til milliliða. Er það ekki að gerast á Íslandi líka? Ég las grein í vikunni þar sem fram kemur að þeir sem græða langmest á þessu öllu saman eru milliliðir og þeir sem framleiða þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Er það ekki það sem er að gerast hér? Ég held því miður að það sé líka að gerast á Íslandi.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er ég ekki sérfræðingur í landbúnaðarmálum og skammast mín ekkert fyrir það. Þar stendur hv. þingmaður mér miklu framar. En ég vil bara benda á það og hef nefnt það að við eigum að auka samráð. Í því felst tillaga mín. Það er tillaga mín að því hvernig við getum reynt að minnka þessa styrki og gert það að verkum að hér sé ekki svo hátt verð á landbúnaðarvörum. Ég veit satt að segja ekki alveg hvernig við eigum að fara að því. Þess vegna er ég að benda á þetta og vitnaði í fagmann sem ég hef aðgang að í sambandi við sauðfjárræktina. En ég vil enn og aftur ítreka að það þarf samráð.