145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:54]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit hreinlega ekki hvort við eigum að gera það. Ég sé ekki ástæðu til þess að framleiða lambakjöt sem við getum ekki notað og flytjum niðurgreitt úr landi. Hver er ávinningurinn af því? Enginn. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að fækka fénu.

Eins og fram hefur komið framleiðum við þrisvar sinnum meira en við torgum. Og það er alltaf að minnka. Rannsóknir sýna að smátt og smátt gæti neyslan bara dottið niður úr öllu valdi, enn þá meira en nú er, niður í 5 þús. tonn á ári. Við verðum að endurskoða þetta. Ég sé ekki að það sé nokkur ávinningur af því að framleiða eitthvað sem enginn vill éta. Ekki borða ferðamenn sem koma til landsins þetta kjöt af mikilli lyst. Þeir vilja ekki þetta kjöt því að það er orðið þannig í heiminum að allt er alið upp á korni. Það er þannig kjöt sem fólk vill borða. Það sagði mér veitingamaður um daginn sem ég heimsótti hér úti í sveitum að ferðamönnum fyndist lambakjötið allt of sterkt, það væri allt of bragðmikið. Ferðamenn eru ekki vanir því að borða svona villibráð eins og við. Þetta er besta kjöt í heimi. Grillaðar kótelettur! Jesús minn, hvað það er gott.

Ég segi það, hv. þingmaður, að ef við þurfum að gera það þá gerum við það bara. Við eigum ekki að halda þessu áfram ef það skilar engum ávinningi fyrir land og þjóð, bara til að halda einhverjum bændum eða litlum býlum úti á landi. Við ættum frekar að reyna að styrkja nýsköpun og byggja upp eitthvað nýtt í kringum landbúnað. Möguleikarnir eru ótrúlegir. Við þurfum að þora að takast á við breytingar en vera ekki alltaf skíthrædd ef nefndar eru einhverjar breytingar, Evrópusambandið eða hvað sem er. Þá hrökkva allir í einhvern gír.

En ég tel samt sem áður að við eigum sauðkindinni mikið að þakka. Við eigum henni það sennilega að þakka að við stöndum hér í dag.