145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Mér hafa þótt svolítil brögð að því hér að hv. þingmenn hafi komið upp í ræðustól og fyrir fram lýst vanþekkingu á landbúnaðarmálum almennt og verið hálfafsakandi að taka þátt í umræðum hér.

Mér finnst það algjör óþarfi og tek fram í upphafi að ég er enginn sérfræðingur í búrekstri eða landbúnaðarmálum en hafði þó alveg í hyggju að taka hér til máls af því að ég hef mikinn áhuga á ríkisrekstri og meðförum ríkisvaldsins á skattfé almennings. Þetta frumvarp lýtur nú einna helst að því.

Ég er líka sérleg áhugamanneskja um skýra löggjöf, læsilegan lagatexta og þar fram eftir götunum. Mig langar að víkja í örfáum orðum að því máli í þessu frumvarpi vegna þess að frumvarpið kann að vera nokkuð tæknilegt, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna á undan mér.

Það er í sjálfu sér ákveðið áhyggjuefni að rekstur á þeirri atvinnugrein sem landbúnaður er á Íslandi skuli vera orðinn þannig að formi til og efni að jafnvel þeir sem véla um málið, setja atvinnugreininni lög, afsaka vanþekkingu sína að þessu leyti. Ég er ekki frá því að lagatextinn sem slíkur eigi þar einhverja sök á.

Nú er svo komið að þetta frumvarp liggur fyrir. Hér er m.a. verið að breyta búvörulögum, nr. 99/1993. Það kann nú að vera svo komið að tilefni sé til þess hreinlega að setja nýja löggjöf með viðeigandi og tilheyrandi greinargerð til þess að skýra hvað lagatextinn fjallar um.

Ég tek sem dæmi 39. gr. frumvarpsins, sem ég er ekki frá því að sé sú allra mikilvægasta í frumvarpinu. Þar er kveðið á um breytingar á 65. gr. búvörulaga um, að ég held, nokkuð mikilvægt efni, þ.e. úthlutun á tollkvótum. Mér finnst afar bagalegt að í greinargerð með þessari lagagrein sé ekki með ítarlegri hætti fjallað um þá breytingu sem hér er lögð til, einkum og sér í lagi í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á m.a. 3. mgr. 65. gr. núgildandi búvörulaga á undanförnum missirum í kjölfar hæstaréttardóma sem fallið hafa um úthlutun tollkvóta.

Hæstv. landbúnaðarráðherra situr nú hérna í salnum og kann að taka til máls hér í lokin eða kannski í andsvari við mig. Kannski gæti hann skýrt málið í nokkrum orðum og sagt hvað 39. gr. felur raunverulega í sér, vegna þess að ég held að þetta sé ekki bara flókið fyrir leikmenn, heldur tæki það líka jafnvel lögmenn, sem ætla kannski að ráðleggja litlum verslunum eða innflutningsaðilum í innflutningi á landbúnaðarafurðum, þó nokkurn tíma að skýra þetta ákvæði.

Þetta vildi ég benda á varðandi formið á lagafrumvarpinu. Það leiðir mig að efni frumvarpsins. Mér finnst vanta töluvert upp á það í athugasemdum með frumvarpinu að það sé skýrt nánar hvert sé raunverulegt markmið frumvarpsins og hver áhrif þess verði til lengri tíma á hina ýmsu aðila hér í þjóðfélaginu.

Vissulega er fjallað um töluleg áhrif, kostnaðinn við nýgerða búvörusamninga. Hér er kafli sem fjallar um mat á áhrifum og þó nokkrum orðum eytt í svokallað jafnréttismat frumvarpsins. En hvaða áhrif hafa þessar breytingar til lengri tíma á frjálsa verslun í landinu og viðskipti milli landa og þar með talið hag heimilanna? Það finnst mér bagalegt að ekki sé skýrt nánar í svo mikilvægu máli sem ætlað er að lifa að mínu mati í óeðlilega langan tíma.

Það er t.d. enginn ádráttur í athugasemdunum sjálfum eða í frumvarpinu um einhverjar verulegar skipulagsbreytingar í landbúnaðarkerfinu.

Ég nefndi tímalengdina. Ég geld nú nokkurn varhuga við þeim búvörusamningum sem nýlega voru undirritaðir með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar sem samþykkja þyrfti hér á Alþingi. En þessum búvörusamningum er ætlað að lifa í tíu ár. Þá vísa ég sérstaklega til 12. gr. frumvarpsins sem er greinilega ætlað að rýmka heimildir ráðherra til þess að gera samninga til lengri tíma.

Þetta er nú kannski lagatæknilegt atriði í 12. gr. frumvarpsins. En ég beini því til hv. allsherjarnefndar að skoða það sérstaklega vegna þess að ég fæ ekki séð að þetta orðalag í greininni standist. Þar segir að heimilt sé að semja til lengri tíma í einu og binda samninga við einstaka búvörur. Þetta eru samningar ríkisstjórnarinnar við Bændasamtök Íslands.

Heimilt að semja til lengri tíma í einu? Lengri en hvað? spyr ég. Jú, þá er væntanlega verið að vísa til eins árs ákvæðis sem er í núgildandi lögum vegna þess að meginreglan er sú að samninga á að gera til eins árs í senn. Þó er í núgildandi lögum heimild til þess að gera samninga til lengri tíma og þeir hafa verið gerðir til um fimm ára undanfarin ár, ef ég þekki það rétt. En ég held að ég fari rétt með það, virðulegur forseti, að tíu ára samningar hafa ekki áður þekkst.

Ég geld varhuga við svo löngum samningum. Það hafa engin málefnaleg rök komið fram, að mínu mati, sem leiða til þess að ríkisstjórnin bindi skattgreiðendur með þessum hætti í svo langan tíma. Þó hef ég alveg fullan skilning á sjónarmiði um fyrirsjáanleika og stöðugleika í landbúnaði eins og öðrum atvinnurekstri. En um svo umfangsmikla breytingu fyndist mér að minnsta kosti að þyrfti að vera fjallað sérstaklega í þessu lagafrumvarpi. Það er ekki gert.

Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá öðrum hv. þingmönnum að auðvitað er bagalegt að ræða frumvarpið áður en að fyrir liggur sá samningur sem íslenska ríkið undirritaði á dögunum við Evrópusambandið um gagnkvæmt afnám tolla af m.a. landbúnaðarafurðum vegna þess að eitthvert samspil hlýtur nú að vera þarna á milli.

Menn hafa hins vegar nefnt það hér og mönnum er mjög tamt að halda því fram að það sé alveg útilokað að afnema tolla einhliða. Það er alltaf talað um það eins og það sé hin mesta firra. Þó höfum við nýleg dæmi um að Ísland hafi afnumið tolla einhliða á vörum. Hér voru í vetur afnumdir tollar af innfluttum fatnaði og skóm burt séð frá því frá hvaða löndum þessar vörur koma, alveg óháð því hvort þessi lönd hafa einhverja tolla á fötum og skóm. Vörugjöld voru hér afnumin án tillits til sambærilegrar skattlagningar í öðrum löndum, þannig að við höfum dæmin.

Ég blæs á allt tal um að hér sé ekki hægt að afnema tolla einhliða af landbúnaðarafurðum. Það finnst mér að hljóti að vera markmið sem við eigum að hafa alveg örugglega til lengri tíma. En við eigum auðvitað að vinna að því í nánustu framtíð að gera það svo einhver bragur sé á því.

Mér finnst líka bagalegt að í frumvarpinu sé ekkert fjallað um einhver af þeim fjölmörgu málaferlum sem Íslendingar hafa staðið í undanfarinn áratug er lúta að verndartollum, álagningu þeirra og úthlutun á tollkvótum.

Ég minni t.d. á þrjá hæstaréttardóma sem féllu í janúar á þessu ári þar sem ríkið var dæmt til þess að endurgreiða innflytjendum gjald vegna tollkvóta. Það er mögulega að einhverju leyti búið að bregðast við þessum dómum fyrir fram. En það breytir því ekki að dómar sem þessir og sá fjöldi mála sem farið hefur ekki bara til íslenskra dómstóla heldur hefur jafnvel endað hjá EFTA-dómstólnum á að leiða menn til umhugsunar um að kerfið sem slíkt sé gallað, ekki bara einstakir þættir kerfisins heldur kerfið sem slíkt, þ.e. sú árátta eða þrjóska manna við að halda uppi einhverju sérstöku og sértæku kerfi er varðar innflutning og frjáls viðskipti eða viðskipti með landbúnaðarvörur.

Mér dettur annar dómur í hug sem ég sé ekki að brugðist hafi verið við með þessu frumvarpi. Það er dómur EFTA-dómstólsins sem féll í febrúar á þessu ári sem jafnvel Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hafði áður fjallað um og komist að sömu niðurstöðu. EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það samræmist ekki EES-rétti að banna innflutning á hráu kjöti. Slíkt bann eins og verið hefur hér á Íslandi væri óréttlætanlegt og teldist vera ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Það tel ég vera svo mikilvægt atriði að ég hefði ekki talið fráleitt að fjalla um það í frumvarpinu hvernig menn hyggjast bregðast við því, ef þeir hafa ekki þegar brugðist við, sem ég held reyndar ekki að þeir hafi gert.

Ég vil að lokum nefna það, og vísa þá í það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að ég er ekki sérfræðingur í landbúnaði sem slíkum en ég hef af því áhyggjur en það kann að vera af því að ég hafi ekki það mikla þekkingu á landbúnaðarkerfinu sem slíku. En ég hlýt að spyrja hvort það geti verið að með frumvarpinu sé verið að taka upp það niðurgreiðslukerfi sem menn lögðu niður með þjóðarsáttarsamningunum á sínum tíma.

Mér finnst í rauninni ekki verða mikil eðlisbreyting á málum með þessu frumvarpi heldur sé miklu frekar verið að hræra í sama grautnum. Mögulega er verið að taka upp einhverjar eldri lausnir.

En það kemur allt til skoðunar hjá nefnd og aftur til umfjöllunar á þinginu og ég ætla að minnsta kosti að leggja mig fram við að fylgjast með þeim ábendingum sem nefndinni munu berast hvað þetta varðar.

Að því sögðu vænti ég þess að umræða um þennan samning haldi áfram á þinginu á þeim nótum að við horfum fram á veginn varðandi væntingar um einhverjar raunverulegar breytingar á kerfinu.

Ég vil sjá að dregið verði úr ríkisafskiptum í landbúnaðarkerfinu og að það verði aukið frelsi með landbúnaðarafurðir til og frá landinu en án aðkomu skattgreiðenda.