145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá spurningu hv. þingmanns hvort að einhverju leyti sé verið að leggja inn á þá braut sem var slegin af 1991 með búvörusamningum, þá í framhaldi af þjóðarsáttarsamningum, er svar mitt já, að því leyti til að menn hætta að gera greinarmun á framleiðslu fyrir innlendan markað og því sem fer til útflutnings í stuðningskerfi af því tagi sem hér á að teikna upp.

Í öðru lagi flutti hv. þingmaður nokkra málsvörn fyrir einhliða niðurfellingu tolla eða vörugjalda þess vegna, færði sem sagt rök fyrir því að Ísland ætti að sjálfsögðu að gera það ef því sýndist svo, menn hefðu til dæmis fellt niður tolla af fatnaði og skóm um síðustu áramót. Var þetta vel valið dæmi hjá hv. þingmanni? Eða hefur það farið fram hjá hv. þm. Sigríði Á. Andersen að gerð var úttekt á því hvernig þetta hefði skilað sér til neytenda í formi lækkaðs vöruverðs? Það var heldur dapurleg niðurstaða. Helmingurinn hefur skilað sér. Hvert fór hitt? Það er því sjónarmið líka að menn horfi til þess hvernig aðstæður eru á markaði og hversu virk samkeppni er hér í verslun áður en menn gefa sér að með þessu sé bara allt unnið fyrir neytendurna ef það er til að auka álagningu verslunarinnar eða að stórum hluta, þá er það nú dálítið annað mál.

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann: Er hv. þingmaður virkilega að halda því fram að það sé ekkert sjónarmið að Ísland reyni að fá eitthvað í staðinn ef verið er að fella niður tolla vegna framleiðsluvarnings á öðrum markaðssvæðum sem hingað koma, t.d. frá Evrópusambandinu? Er það ekki sjónarmið að við reynum þá að fá eitthvað fyrir okkar snúð á móti, t.d. auka tollfrjálsan útflutning á skyri eða smjöri eða lambakjöti eða unnum sjávarafurðum eða einhverju ef til er að dreifa tollum þar? Eigum við að fara með þennan frjálshyggjukyndil ein um heiminn þannig að við skeytum ekki einu sinni um það að fá neitt gagngjald ef við erum að breyta reglum í samskiptum við önnur ríki af þessu tagi?