145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:31]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum þessa ræðu. Ég tel mjög mikilvægt að við tölum skýrt í þessari umræðu. Því kalla ég eftir nánari útlistun hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur á því sem hún segir hér að hún telji að það verði að sníða framleiðsluna að þörfum innanlandsmarkaðarins. Gerð var stór breyting á starfsumhverfi sauðfjárræktarinnar fyrir nokkrum árum þar sem horfið var frá framleiðslustýringu. Er þingmaðurinn þá að tala fyrir því að taka aftur upp framleiðslustýringu í sauðfjárrækt?

Ég veit að hv. þingmaður hefur áhyggjur, eins og ég og fleiri hafa lýst hér, af veikum sauðfjársvæðum hér um landið og segi þá: Við verðum þá líka að horfast í augu við það að við munum þurfa að fækka sauðfjárbúum stórkostlega ef við förum þá leið. Þá hefði ég fyrst áhyggjur af þeim veiku sauðfjárræktarhéruðum landsins.