145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er virðingarvert að ráðherra reyni að bregðast við og svara og líka heiðarlegt að viðurkenna að menn hafi ekki endilega svör við öllum spurningum, eðlilega. Hæstv. ráðherra er nýlega kominn að þessum málum úr annarri átt, þannig að ég tek það fullgilt og nefndin skoðar þetta.

Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf ráðherrans til þakanna sem ég hafði ekki tíma til að koma inn á, þ.e. þessarar niðurstöðu að allt að 0,7% af heildarstuðningi í mjólk getur farið til hvers framleiðanda. Það þýða samkvæmt minni stærðfræði að minni búin gætu, ef þetta yrði að eiginlegu stýritæki og öll búin færu upp í þakið, orðið 143 í landinu og hefði þá orðið talsverð grisjun. Þetta er þó þetta lægra í sauðfjárræktinni, það er 0,4%. Ég batt vonir við að kúabændur mundu fallast á að lækka þakið sín megin eða ríkið, en það varð ekki niðurstaðan.

Hæstv. ráðherra segir og ég efast ekki um að menn meina það að ætlun manna með þessum samningum sé m.a. að efla byggð og hlúa að henni í landinu. En er það þá ekki dálítið öfugsnúið þegar úttektir sýna að helstu sauðfjárræktarsvæðin í landinu, þar sem sauðfjárræktin kemst næst því að vera heilsársatvinnugrein og skapa fjölskyldum heilsárstekjur, eins og í Strandasýslu og á norðausturhorni landsins, stefna í að fara verst út úr þessum samningi og missa 19% af stuðningnum á samningstímanum? Þar hefur eitthvað mistekist. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að það á að leita að fjölbreyttum verkfærum til þess að styðja við byggð við slíkar aðstæður.

Hæstv. ráðherra nefndi húsnæðiskostnað í sveitum. Ætli það séu margar stéttir landsmanna sem búa við annað eins og bændur sem ætla að byggja yfir sig í sveitum og þurfa að horfast í augu við að þeir verða að afskrifa stóran hluta stofnkostnaðar húsnæðisins bara á einu bretti daginn sem þeir flytja inn í það? Nýtt stórt einbýlishús í sveit kostar kannski 50, 60 milljónir í byggingu og er að brunabótamati svona 50, 60 milljónir, en menn fá kannski fasteignamat daginn sem þeir flytja inn í það upp á 12–15. Hvað varð um mismuninn? Menn sitja uppi með hann ævilangt eins og ástandið er þar á fasteignamarkaði.

Ef hæstv. ráðherra gæti aðeins komið (Forseti hringir.) inn á þetta með byggðastuðninginn nánar og velt þá vöngum yfir því hvort ekki sé einnar messu virði að skoða það betur (Forseti hringir.) hvort menn eru ná þeim markmiðum sem þeir segjast vera að setja sér í þessum samningi.