145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er mjög næmt. Menn bregðast ekkert við því í einum hvelli þegar annaðhvort vantar eða þarf að bæta í. Það tekur tíma að setja á gripina, tekur tíma að auka framleiðsluna og líka að draga úr henni. Það er kannski auðveldara að draga úr henni en þá fá menn lægra verð ef magnið er of mikið. Ég er sammála hv. þingmanni með það.

Ég hins vegar hef þá trú að það muni ekki breytast svo mikið í sauðfjárræktinni. Varðandi mjólkina og nautgripina er ákvæði í samningunum sem á að horfa til þess. Ég minni enn og aftur á að það eru ákveðin endurskoðunarákvæði í þessum samningum, 19 og 23. Það er mikilvægt að öll eftirfylgni, umsýsla og umsjón með framleiðslunni eða með þessum greinum sé þannig að við gerum okkur tímanlega grein fyrir því hvað það er þá, 19, sem þarf að bregðast við o.s.frv.

Enn og aftur þakka ég fyrir þær spurningar sem hafa komið fram og umræðuna. Ég veit að mörgu er ósvarað og ég geri fastlega ráð fyrir því og veit að nefndin mun fara vandlega yfir það. Að sjálfsögðu munu fulltrúar ráðuneytisins og ráðherrann, ef eitthvert gagn er í honum, koma fyrir nefndina þegar eftir því verður kallað.