145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

virðisaukaskattur.

758. mál
[20:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er búinn að mæra formann atvinnuveganefndar nóg á þessum degi og sömuleiðis þá sem hér hafa talað af hálfu hv. atvinnuveganefndar. Ég verð hins vegar að bæta við enn einni rós hróss í hnappagat hans. Ég tel að það sé virkilega gott fordæmi hjá honum að seilast með þessum hætti yfir á verksvið efnahags- og viðskiptanefndar og leggja hér fram mál sem að öllu eðlilegu hefði átt að vera innan verksviðs hennar. Málið er hins vegar þannig vaxið, og er það jákvætt, að ég tel að það mundi mjög horfa til heilla ef hv. þingmaður beitti sér fyrir því að fleiri af verkefnum efnahags- og viðskiptanefndar yrðu færð yfir til hans. Mér sýnist að þar ríki sú eindrægni og sá friður um mál af þessu tagi að þar sé hugsanlega besta leiðin til að ná fram umdeildum málum.

Ég ætla í öllum aðalatriðum að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Ég tel að nefndin hafi sýnt mjög jákvætt frumkvæði í störfum sínum sem tengjast þessum málaflokki og sér stað bæði í þessu frumvarpi og því sem við ræddum áðan. Ég tel að margir kostir fylgi þeim leiðum sem nefndin hefur lagt til og tek undir það sem hefur komið fram bæði hjá þeim sem talaði áðan og eins hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, að þetta mun að öllum líkindum leiða til þess að miklu auðveldara verði fyrir skattyfirvöld að ráðast til atlögu við þau tiltölulega umfangsmiklu undanbrögð frá skatti sem enn er að finna í þessum geira ferðaþjónustu. Við vitum öll af því sem höfum einhverja nasasjón af þróun síðustu ára.

Þær athugasemdir sem ég vil gera við þetta eru tvenns konar. Ég ætla ekki að fjölyrða um hina fyrri en hún er efnislega sú sama og ég gerði við samsvarandi ákvæði í því frumvarpi sem við ræddum hér áður, þ.e. ég kom þar fram með ábendingu um að hv. nefnd kynnti sér milli 2. og 3. umr. hvort ekki væri vilji fyrir því í hennar röðum að vísitölutengja viðmiðunarupphæðina, 2 milljónirnar. Það er fyrri ábendingin.

Hin síðari er sú að ég tók eftir því að hv. formaður nefndarinnar og framsögumaður þessa máls sagði á einum stað í sínu máli þegar kom að því að reifa veltumörkin að þingheimur gæti sjálfur kynnt sér það sem segði í greinargerð með þessu frumvarpi að því er varðaði veltumörk. Þegar maður gerir það kemur í ljós að ef Norðurlöndin eru frátekin eru veltumörkin í flestum löndum töluvert hærri en þær 2 milljónir sem hér er staðnæmst við. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi, fyrst þeir á annað borð leggja í þetta ferðalag, að vera frjálslyndir í þessum efnum. Ég hefði kosið að sjá þessa upphæð hærri. Fyrst menn eru á annað borð að fara þessa leið hefði ég talið að nefndin hefði átt að staðnæmast hugsanlega við 3–4 milljónir, ég tala nú ekki um ef niðurstaðan verður sú að vísitölutengja ekki veltumörkin. Við vitum að ef svo verður ekki lækka þau að raungildi með tímanum og við þær lyktir málsins tel ég eiginlega einboðið að þessi upphæð verði hækkuð.

Það hefur komið fram að fyrra málið verður rætt í nefnd milli 2. og 3. umr. Hér er þetta mál við 1. umr. þannig að ég beini því til hv. formanns atvinnuveganefndar, Jóns Gunnarssonar, hvort hann sé ekki í anda þeirrar miklu sáttar sem hann hefur nú gerst forgöngumaður um á þessu þingi, og brá öðrum öðruvísi við þegar sá ágæti formaður átti í hlut, að taka þetta til vinnslu og kanna hvort ekki sé grundvöllur að sátt milli hv. atvinnuveganefndar, sérstaklega formanns hennar, og 4. þm. Reykv. n. í þessu mikilvæga máli.