145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að nýrri skýrslu Öryrkjabandalagsins vegna greiðsluþátttökufrumvarpsins sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu og styður kannski það sem ég hef haldið hér fram og er vert að vekja athygli á. Ég held að þingheimur verði að skoða vel sinn hug áður en það frumvarp verður samþykkt óbreytt.

Það felur í sér að kostnaður þeirra 15% sjúkratryggðra sem nota heilbrigðisþjónustuna mest, átta sinnum eða oftar á ári, lækkar. Þau 85% sem nota þjónustuna minna, einu sinni til sjö sinnum á ári, borga mismuninn. Ríkissjóður sparar á þessu einar 46 millj. kr. sem út af fyrir sig er ástæðuefni til að hafa áhyggjur af í þessu sambandi því að þetta bitnar á þeim sem minna mega sín, þ.e. öldruðum og öryrkjum sem nota læknisþjónustuna og borga um 503 millj. kr. meira eftir breytinguna, þ.e. sá hópur sem er ekki mjög reglubundið hjá lækni.

Kostnaður við heimsóknir til sérfræðilækna eykst verulega hjá þeim hópum sem hafa lága framfærslu og fer úr í kringum 50% í 67%, sem er miklu meira en margur getur ráðið við. Það eru rannsóknir m.a. frá Rúnari Vilhjálmssyni frá árinu 2015 þar sem kemur fram að tæp 22% fresta komu til læknis vegna þess að það kostar of mikið. Hverjir eru það sem fresta? Það eru einna helst þeir sem höllum fæti standa í samfélaginu, m.a. öryrkjar.

Svo er til viðbótar að lyfjakostnaðurinn, sparnaðurinn þar hefur ekki runnið til notanda, eins og svo margt annað sem við höfum séð í fréttum undanfarna daga að skilar sér ekki til neytenda.

Virðulegi forseti. Við þingmenn þurfum að hugsa okkur um áður en þetta frumvarp verður samþykkt. (Forseti hringir.) Viljum við standa vörð um það fólk sem höllum fæti stendur í samfélaginu?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna