145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel að hv. atvinnuveganefnd eigi mikið hrós skilið fyrir breytingartillögur sínar. Frumvarpið í upphafi var gott en að tillögum hennar fram komnum er það mun betra.

Varðandi 1. tölulið breytingartillagna nefndarinnar vil ég eigi að síður geta þess að ég lét það koma fram í umræðum um málið að ég tel að skoða þurfi tvennt varðandi þá tillögu; í fyrsta lagi að hækka upphæðina og í öðru lagi að tengja hana við vísitölu eða einhverjar aðrar veltustærðir sem virðisaukaskattskerfið byggir á.

Að því sögðu vil ég líka þakka hv. formanni nefndarinnar, Jóni Gunnarssyni, fyrir að hafa tekið vel í þá málaleitan mína að þetta verði skoðað á milli umræðna. Að þessu sinni ætla ég þess vegna ekki að greiða atkvæði með þessum tölulið heldur sitja hjá en styðja frumvarpið og breytingartillögurnar að öðru leyti.