145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[15:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt að ungt fólk sjái fyrir sér framtíð á Íslandi í fjölbreyttu og öflugu samfélagi. Við vinstri græn viljum að boðið verði upp á húsnæði á viðráðanlegu verði, að menntun verði aðgengileg öllum, fæðingarorlof verði a.m.k. 12 mánuðir og leikskólinn taki við að því loknu án gjaldtöku. Ísland á að vera spennandi valkostur fyrir ungt fólk óháð kyni og að því viljum við vinstri græn vinna.

Hvað húsnæðismálin varðar er löngu tímabært að skapa sterkan, stöðugan og öruggan leigumarkað en um leið að gera ungu fólki kleift að kaupa kjósi það sér það frekar. Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er fátæktargildra fyrir ungt fólk og hér hafa einungis örlítil skref verið tekin, sem taka ekki á vanda dagsins í dag. Einn af möguleikunum sem vert er að skoða er að ríkið eða Íbúðalánasjóður bjóði upp á sérstök útborgunarlán sem næmu 25% af verði hóflegrar fyrstu eignar vaxtalaust til fimm ára. Hér talar ráðherra um séreignarsparnað. Við þurfum að hafa í huga að laun ungs fólks eru lág og ekki hafa allir efni á því að leggja fyrir. Við vinstri græn leggjum áherslu á það að hluti námslána verði styrkur og að þau verði greidd út í byrjun hvers mánaðar.

Það er óþolandi málflutningur af hálfu menntamálaráðherra og LÍN að segja að tæplega 50% námsmanna séu styrkur þegar vitað er að einungis er um örfáa einstaklinga að ræða en ekki heildina. Allir eiga að geta sótt sér nám óháð stétt og stöðu í samfélaginu. Lánasjóður íslenskra námsmanna var rekinn með 7 milljarða kr. afgangi á síðasta rekstrarári en sker nú niður eins og enginn sé morgundagurinn. Ráðherra talar um framtíðarsýn sína í menntamálum. Hún endurspeglast ekki í ríkisfjármálaáætlun hans. Takmarkanir eru í framhaldsskóla. Það er lækkun á framlögum til háskóla sem þýðir ekkert annað en fjöldatakmarkanir.

Það er verulegt áhyggjuefni að ungt, vel menntað fólk standi frammi fyrir auknu atvinnuleysi og lægri tekjumöguleikum sem þýðir að möguleikar þeirra til almennilegs viðurværis eru ekki viðunandi. Þessi ríkisstjórn hefur kosið að forgangsraða ekki í þágu ungs fólks, t.d. með skerðingu barnabóta, og sjálfstæðis- og framsóknarmenn hafa lækkað skuldir og skatta (Forseti hringir.) á þá sem vel standa í samfélaginu. Það er þeirra forgangsmál en ekki (Forseti hringir.) að búa komandi kynslóðum viðunandi lífskjör og almennilega framtíðarmöguleika.