145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:00]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir bæði afar þarfa og góða umræðu. Af mörgu er að taka og á þessum stutta ræðutíma ætla ég að reyna að nefna nokkur atriði sem mér finnst mjög mikilvæg hvað varðar framtíðarmöguleika ungs fólk hér á landi.

Ég vil byrja á því að taka undir þau orð hæstv. fjármálaráðherra að auðvitað skiptir máli fyrir alla sem hér búa að efnahagslífið sé stöðugt, að atvinnuleysi sé lítið og að dregið sé úr skuldasöfnun ríkisins. Það hefur úrslitaþýðingu fyrir framtíð ungs fólks hérlendis.

Við verðum að vera samkeppnisfær vegna þess að fólk í dag vílar ekkert fyrir sér að flytja á milli landa ef betri kjör bjóðast annars staðar, þó svo að fjölskyldan togi yfirleitt svolítið í fólk á endanum. En þá eru það þessi atriði, þ.e. atvinna, húsnæði og aðgengi að menntun.

Byrjum á atvinnunni. Nú vantar fólk í vinnu alls staðar á Íslandi. Atvinnustigið er gott en hið sama er ekki að segja um lönd annars staðar í Evrópu þar sem að atvinnuleysi meðal ungs fólks er jafnvel á milli 30–50%.

Ég sé að tíminn er strax að verða búin. Maður hefur engan tíma í þetta.

Af því að við erum hér á degi jafnréttis langar mig að nefna atvinnuleysi og konur. Ég rakst á grein í Kjarnanum um að menntaðar konur fá ekki vinnu. Konur með háskólamenntun fá síður vinnu við hæfi en karlar en hins vegar er atvinnuleysi hjá körlum með grunnskólamenntun hærra.

Þarna er eitthvað að og (Forseti hringir.) þótt við tölum um gott atvinnustig á Íslandi þá verðum við, eins og fram kom í störfum þingsins, að komast að því hvað liggur á bak við þessar tölur. (Forseti hringir.) Við verðum að fara í þá greiningu vegna þess að (Forseti hringir.) málið er mun flóknara en það virðist vera í fyrstu.