145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við ræðum þetta en ég get ekki komist hjá því að nefna að það eru fleiri hópar í samfélaginu sem vildu gjarnan fá sérstaka umræðu, svo sem gamalt fólk og útlendingar. (Gripið fram í: Við hjálpum …) Ég vil bara halda því til haga en eins og ég segi geri ég ekki lítið úr þessu efni. Þvert á móti, það er mikilvægt að við ræðum það vegna þess að það er misjafnt hvernig hlutirnir lenda á misjöfnum hópum í samfélaginu.

Þegar kemur að ungu fólki hygg ég að það sé sérstaklega óþægilegt fyrir þann hóp að húsnæðiskostnaður hækkar gríðarlega mikið og verður stór hluti af útgjöldum ungs fólks. Vissulega er það vandamál sem að einhverju leyti er verið að bregðast við en það er einfaldlega ekki nóg að benda á tölur um að kaupmáttur hafi aukist svo og svo mikið vegna þess að það skiptir máli gagnvart hverju hann hefur aukist. Ég stórefast um að kaupmáttur ungs fólks gagnvart húsnæðiskostnaði hafi aukist. Mér finnst það mjög ólíklegt en hef reyndar ekki enn skoðað tölurnar.

Nú vantar hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur til að fara betur yfir menntamálin, hún er í útlöndum sem stendur, en þegar ég hef lent í umræðum um LÍN hefur mér fundist eins og það kerfi geti ekki alveg ákveðið hvort það ætli að vera styrkjakerfi eða lánakerfi. Það virðist vera einhvers konar samsuða af hvoru tveggja sem lýsir sér í því að styrkirnir felast í lágum vöxtum. Ég efast um að skjólstæðingar stofnunarinnar finni fyrir því vegna þess að þetta eru verðtryggð lán. Sömuleiðis er hitt sem hv. þingmaður á undan mér fór aðeins inn á, það að fólk þarf að geta nýtt menntun sína hérna líka. Það er ekki nóg að við menntum fólk, það þurfa líka að vera tækifæri til að nýta menntunina hérna. Kannski ættum við að skoða þau mál betur.

Þegar á heildina er litið hygg ég að það sem þvælist mest fyrir fólki akkúrat núna séu húsnæðismálin sem tekur auðvitað tíma að laga. Eins og ég segi er ekki einfaldlega hægt að benda á einhverjar tölur yfir heildir í þeim efnum, ekki heldur ungs fólks sem svo skiptir máli gagnvart hverju kaupmáttaraukningin er.