145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[16:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega þannig að það er engin ástæða til að ætla að bygging ferjunnar setji önnur framkvæmdaáform okkar í uppnám eða valdi töfum. Því er hins vegar ekkert að leyna að ef einhverra hluta vegna, nú vil ég leyfa mér að gerast svolítið skáldlegur, við mundum ekki byggja ferju, við mundum ekki verja þessum fjármunum, þá er samt sem áður hægt að líta þannig á að þá hefðum við þeim mun meira í önnur verkefni. Þetta er aðeins spurning um hvernig maður nálgast það álitamál hvort ferjan valdi því að maður geri minna annars staðar. Ekki getur maður eytt sömu krónum tvisvar sinnum í mismunandi verkefni.

Það sem ég er að vonast til er að við fáum aftur kraft í lausn á samgöngumálum til Vestmannaeyja, að Vestmannaeyingar geti séð fram á það að núna í kjölfarið verði strax farið í útboð. Ég vonast til þess að okkur auðnist að fá áhugasama aðila til að klára byggingu ferjunnar. Auðvitað má segja að það hafi verið visst álitamál í þessu öllu hvort við ættum að fara þessa valkvæðu leið í útboðinu vegna þess að við erum í raun og veru búin að klára hönnunina. Það eru meiri rök fyrir því að bjóða út þennan kost, að smíða og reka ferju, ef fullnaðarhönnun skipsins hefur ekki verið lokið. Menn hafa minna olnbogarými þegar hönnun ferjunnar liggur fyrir. Engu að síður tel ég rétt að bjóða upp á þessa valkosti og láta bara á það reyna hvort einkaaðilar telji sig geta smíðað og rekið ferjuna samkvæmt þjónustusamningi (Forseti hringir.) með einhverjum þeim hætti að það verði hagkvæmara en fyrir ríkið að smíða skipið og fjármagna.