145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[16:39]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram og að taka eigi á samgöngumálum til Vestmannaeyja. Það þýðir ekki endilega að ég sé sammála þessari leið, að eyða fjórum til fimm milljörðum í smíði á ferju. Þar greinir okkur ráðherra á og kannski fleiri hér inni.

Samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að ný ferja geti siglt til Landeyjahafnar, eins og hæstv. ráðherra sagði, í 76–89% tilvika á ári. Ef við tökum 76% þá eru það í raun þrír mánuðir sem ekki er siglt til Landeyjahafnar og það er að mínu mati ekki alveg ásættanlegt.

Landeyjahöfn hefur verið vinsælt umræðuefni. Ég segi: Það er nú óneitanlega svolítill keimur, svona „2007-look“, á þeirri framkvæmd. Vestmannaeyingar eru svolítið óþolinmóðir að mínu mati, að trúa því að flókin höfn klárist á þremur árum. Þrjú ár liðu frá því að byrjað var að gera höfnina þar til hún var tekin í notkun. Reynslan sýnir að það hefur tekið marga áratugi að byggja og fullhanna hafnir við svipaðar aðstæður og oftar en ekki hafa þær ekki orðið góðar fyrr en garðar hafa verið reistir utan yfir gömlu garðana. Mér þykir ekki ólíklegt að það verði raunin í Landeyjahöfn. Hvort sem mönnum líkar vel eða illa held ég að staðreyndin sé sú að höfnin eins og hún er í dag sé ekki til að stóla á að vetrarlagi, hvort sem er fyrir stór eða lítil skip. Það sýnir sig í þessari áætlun frá Vegagerðinni, að það geti verið þrír mánuðir sem ekki verður siglt í Landeyjahöfn. Ekki var hlustað á reynda sjómenn þegar ráðist var í þessa hafnargerð og má segja að flest hafi komið fram sem reyndir sjómenn, sem þekktu þetta svæði, bentu á í upphafi.

Ef ég vitna aðeins í orð Sigurðar Áss Grétarssonar, framkvæmdastjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar, þá segir hann að þrír aðalkostir séu í stöðunni, þ.e. að bjóða út smíði nýrrar ferju, að gera verulegar endurbætur á höfninni eða afskrifa Landeyjahöfn og hanna nýtt skip til siglinga í Þorlákshöfn. Sigurður segir að smíði nýju ferjunnar taki langstystan tíma og kosti minnst. Það tekur kannski minnstan tíma, ég get tekið undir það. En menn eru í ákveðinni tilraunastarfsemi með Landeyjahöfn og að mínu viti er að hluta til um að ræða tilraunastarfsemi við smíði á þessari nýju ferju líka. Ég hefði viljað sjá að nýtt skip yrði leigt með sams konar búnað og til stendur að hafa á þessu nýja skipi, með þessum skrúfubúnaði; að láta reyna á hann við þessar aðstæður. Þessi stjórnbúnaður og skrúfubúnaður sem er hannaður á þessari nýju ferju hefur reynst vel að því leyti til að stjórnhæfni skipanna er mikið betri. Það deilir enginn um það.

En mig langar að fá að vitna, með leyfi forseta, í aðvörunarorð frá manni sem vinnur í tryggingageiranum; hann hafði samband við mig og nefndi þær áhyggjur sem hann hafði. Þessi ágæti maður var nýkominn af ráðstefnu einhvers staðar erlendis þar sem tryggingafélög víða um heim voru að funda og þar kom einmitt þessi búnaður til tals, þ.e. þessi Azimuth-skrúfubúnaður sem er á þessu skipi.

Þessi maður segir:

„Þessi búnaður hefur verið notaður mikið í nýjustu þjónustuskipunum fyrir olíuiðnaðinn. Þessi skrúfubúnaður eykur stjórnhæfni skipsins og bætir eldsneytisnýtingu miðað við hefðbundinn skrúfubúnað. En hins vegar er þetta neðsti punktur á skipinu og ef það tekur niðri þá er það það fyrsta sem rekst niður með miklum líkum á stórlega skertri stjórnhæfni skipsins. Þessi búnaður er flókinn í uppbyggingu og er í grunninn stækkuð útgáfa af hældrifi eins og við þekkjum af hraðfiskibátunum. Ég vek einnig athygli á því að þegar skipi með svona búnað er beitt við aðstæður eins og eru í Landeyjahöfn má búast við að mikið álag verði á skrúfuöxuls-pakkdósirnar vegna sandsins sem skrúfurnar þyrla upp með tilheyrandi olíuleka og bilanahættu. Ég tel því að þrátt fyrir kosti þessa skrúfubúnaðar, varðandi bætta stjórnhæfni og eldsneytisnýtingu, vegi þyngra hættan af skemmdum á þessum búnaði vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í Landeyjahöfn með tilheyrandi hættu fyrir skip og farþega þess. Að mínu áliti þarf skrúfubúnaður skips sem beitt er við þær aðstæður sem eru í Landeyjahöfn að vera mun einfaldari, það er að segja hefðbundinn skrúfu- og stýrisbúnaðir sem varinn er af kili skipsins og með öflugri skrúfuássþéttun. Með hefðbundnum skrúfubúnaði tel ég að skipið yrði mun öruggara en ella því hætta á skemmdum mundi minnka til muna, samanber framangreint.“

Það sló mig svolítið, ég verð að viðurkenna það, að eiga þetta á hættu við þessar aðstæður. Ég hafði nú gert mér grein fyrir að þetta væri lægsti punktur og ef skipið tæki niðri — þarna er grunnsævið einmitt vandamálið og ferð á sandinum þannig að menn geta lent í því að sandurinn hafi gengið til og það sé grynnra en þeir reiknuðu með. En þeir sem þekkja til á þessum smábátum með hældrifi vita að þetta mjög viðkvæmur búnaður.

Þá velti ég fyrir mér: Ef þessar pakkdósir fara að leka og skipið þarf að fara upp í slipp — hvar fer það þá í slipp? Þarf það að sigla til Akureyrar? Kemst það í Reykjavík eða Hafnarfjörð? Búast má við því að frátafirnar verði meiri, það komi dagar, ef taka þarf svona skip upp, skipta um einhverjar pakkdósir, þó svo að búnaðurinn sé til, þá tekur þetta nokkra daga. Hvað gera Vestmannaeyingar þá? Eru þá engar samgöngur? Er þá aðeins flug? Ég held að menn smelli ekki fingri og þá sé einhver ferja tilbúin til að taka við að þjónusta þó ekki sé annað en atvinnulífið þarna. Það eru farmflutningar, það er verið að flytja fisk upp á land í flug og annað slíkt. Ég set því spurningarmerki við að hanna og smíða svona dýrt skip án þess að vera búinn að prófa þennan búnað. Það hefur legið fyrir og stóð til boða og ég er sannfærður um að hægt er að finna skip sem hægt væri að leigja; og það væri þá hægt að leigja það strax. Núna þurfum við þó að bíða í tvö ár eftir að bæta samgöngur til Vestmannaeyja. Með því að grípa inn í og leigja skip gætum við strax bætt þessar samgöngur og prófað þennan skrúfubúnað, hvernig hann reynist við þessar aðstæður.

Ég verð líka að viðurkenna að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að selja núverandi Herjólf fyrir 500–700 milljónir; í þessu dæmi er það nú ekki stór tala. En ég vil að menn reikni dæmið í botn strax og reikni bara með að Herjólfur verði að minnsta kosti á hliðarlínunni. Ég treysti því að menn sjái sig um hönd og bíði með að selja Herjólf, þetta ágæta skip. Hver veit nema eitthvað óvænt komi upp á? Það er ekki bara það að skipið sé minna; ég segi að þetta skip sé minna þegar það er bæði mjórra, ég held að það sé um metra mjórra, og ristir grynnra. Þó að það sé upp undir jafn langt þá erum við að tala um minna skip. Það þarf enginn að segja mér að það skip sé jafn öruggt til Þorlákshafnar og að það verði jafn fljótt í förum þangað við erfiðar aðstæður og núverandi Herjólfur, miðað við byggingarlagið. Þetta verður því lakari þjónusta þegar sigla þarf til Þorlákshafnar, þessa þrjá mánuði. Ég spái því svo sem að það verði meira en þrír mánuðir.

Ég legg til að menn reikni dæmið alla leið og við reiknum með að Herjólfur verði þarna til staðar. Gefum okkur allavega góðan tíma til þess. Það er eiginlega ekki hægt að deila um þetta, ég held að menn verði að teljast sammála því, með því að viðurkenna að jafnvel sé um þrjá mánuði að ræða, að við erum ekki að ræða um heilsárshöfn. Landeyjahöfn er langt frá því að vera tilbúin, við skulum bara sætta okkur við það. Með leyfi forseta, skrifar Sigurður Áss Grétarsson hér:

„Að gera endurbætur á Landeyjahöfn tekur í það minnsta fimm ár, en líklega frekar 10 til 15 ár. Það tekst jafnvel aldrei. Það þarf að ljúka ítarlegum rannsóknum áður en ráðist er í framkvæmdir, sem nú er ekki víst að skili nokkru. Svo taka þær sinn tíma. Að afskrifa Landeyjahöfn eða gera hana að sumarhöfn er annað mál. Smíði hraðskreiðrar ferju kostar margfalt meira en þeirrar sem er á teikniborðinu. Skip af þeirri stærð sem talað er um og á að sigla til Þorlákshafnar á 2 tímum, mun aldrei passa fyrir Landeyjahöfn. Það þarf líka að hanna og smíða það. Svo þyrfti að stækka ferjuaðstöðuna bæði í Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum.“

Að mínu mati hittir hann naglann á höfuðið þarna. Þegar upp er staðið hefði það kannski verið ódýrasta leiðin að smíða alvöruferju og laga hafnir, bæði í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Þá hefði það verið langskynsamlegasta leiðin. En við erum að minnsta kosti komin á þennan punkt og einhvern tíma verður að taka ákvörðun. Það er verkefni okkar stjórnmálamanna að taka ákvörðun og svo verður að koma í ljós hvort þær séu réttar eða ekki, en eins og ég hef sagt hér áður hefði ég talið það vænlegra og skynsamlegra að leigja skip með sambærilegan búnað þó að það risti aðeins dýpra, þó að það kosti aðeins meiri dýpkun að sinni. Það hefði verið skynsamlegri leið.

Ég fagna því þó að við erum að taka ákvörðun.