145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[16:55]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að koma hingað upp og segja nokkur orð um þetta frumvarp vegna þess að ég gleðst alveg afskaplega mikið yfir því og tek undir það með hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni að þetta er löngu tímabært frumvarp og ástæða til að gleðjast yfir því.

Hv. þingmaður fór yfir tæknileg mál hér á undan mér og nýtur þar kannski þekkingar sinnar sem sjómaður og hefur vit á þessu öllu saman. En það sem mér finnst lykilatriði í þessu er að þetta er staðan í dag. Tekin var ákvörðun um að byggja þessa höfn og vissulega fóru menn kannski offari í því og ef til vill án þess að kanna það alveg fullkomlega og jafnvel ekki tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem reyndir sjómenn gáfu upp á þeim tíma. Það er kannski það sem er ámælisvert í þessu.

En staðan er sú að í dag er höfnin til staðar og hún hefur reynst Vestmannaeyingum gríðarlega vel. En við ráðum náttúrlega ekki við náttúruhamfarir og annað þar fram eftir götunum á Íslandi. Vestmannaeyingar hafa aldeilis fengið að kynnast því í gegnum tíðina að búa á þeim stað þar sem náttúruöflin gera það oft að verkum að ekki er hægt að komast fram og til baka frá Vestmannaeyjum. Til dæmis eru nýleg dæmi um að það var ekki hægt í tvo sólarhringa sem er grafalvarleg staða.

En lykilatriðið í þessu er, og við þingmenn getum haft ýmsar skoðanir á því, hvernig á að gera hlutina og framkvæma þá. En þá finnst mér í þessu máli lykilatriðið sérstaklega vera hvað heimamönnum finnst. Þetta er 4 þús. manna byggð og fyrir mér sem bý í Grindavík og er langt frá því að vera einhver sérfræðingur í höfnum eða siglingum eru samgöngur lykilatriði í nútímasamfélagi. Það er eitt stærsta byggðamál sem við tökumst á við. Hvað varðar Vestmannaeyinga og Vestmannaeyjaferju þá fylgi ég þeirra, hvað á ég að segja, hugsun og vilja í þessu máli. Það er viðhorf mitt eftir að hafa skoðað þetta, en eins og ég sagði er ég ekki sérfræðingur.

Vestmannaeyjabær, bæjarstjórnin þar, lét Gallup vinna fyrir sig skoðanakönnun sem var framkvæmd í haust og fram til 5. janúar. Þar var meðal annars spurt, með leyfi forseta:

„Vinsamlegast tilgreindu hversu sammála eða ósammála þú ert eftirfarandi fullyrðingu: Ég vil að ráðist verði í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og smíðatími hennar nýttur til að gera breytingar á Landeyjahöfn.

Niðurstaðan var afdráttarlaus. Af þeim sem tóku afstöðu voru 86% svarenda ýmis sammála eða mjög sammála […] Sé tekið tilliti til þeirra svara sem ekki fólu í sér afstöðu voru 80% sammála stefnu bæjarstjórnar, 7% hlutlaus og 13% ósammála.“

Þetta getur nú ekki verið miklu skýrara.

Önnur spurning var líka lögð fram í þeirri könnun, með leyfi forseta:

„Vinsamlegast tilgreindu hversu sammála þú ert eftirfarandi fullyrðingu: Ég vil að áhersla sé lögð á að bæta samgöngur um Landeyjahöfn.

Niðurstaða þar var jafnvel enn afdráttarlausari þar sem 94% var ýmist sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu.“

Ég segi, það er afskaplega erfitt fyrir mig að fara að setja mig upp á móti málinu og það sem ég hef kynnst og fylgst með í því síðan ég varð þingmaður hefur verið á einn veg. Vissulega hafa verið uppi efasemdaraddir sem er ekki óeðlilegt og menn hafa komið einmitt með hugmyndir um það, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns á undan mér, að leigja ferju og vissulega er það möguleiki.

En þarna liggur þetta alveg svart á hvítu, þetta er það sem Vestmannaeyingar vilja. Þetta er þeirra þjóðvegur. Við verðum að líta til allra þátta í þessu. Kostnaðurinn við að búa í Vestmannaeyjum og ferðast milli lands og Eyja er líka mikill. Það kemur fram í bókun hjá bæjarráði Vestmannaeyja þegar verið var að tala um að hækka gjaldskrá Herjólfs. Mig langar til að lesa aðeins upp úr þeirri bókun því að hún er mjög athyglisverð þar sem bæjarráð hvetur Vegagerðina til að leggja höfuðáherslu á að sinna skyldu sinni. Með leyfi forseta, vil ég vitna í hana:

„Þá hvetur bæjarráð Vegagerðina til að leggja höfuðáherslu á að sinna skyldu sinni hvað varðar að tryggja viðunandi þjónustu í siglingum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar enda er það margfalt hagkvæmara fyrir bæði notendur og rekstraraðila að sigla þá stuttu leið. Varlega áætlað munar um milljón á dag fyrir ríkissjóð að sigla í Landeyjahöfn frekar en Þorlákshöfn og kostnaðurinn fyrir notendur er gríðarlegur.

Bæjarráð minnir á að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er heildarkostnaður við Héðinsfjarðargöng 14,2 milljarðar. Það kostar hins vegar notendur ekkert að fara þar um. Heildarkostnaður við Bolungarvíkurgöng voru um 6,5 milljarðar. Það kostar heldur ekkert að fara þar um. Kostnaðurinn við Hvalfjarðargöng var 4,6 milljarðar árið 1996 (uppreiknaður kostnaður eru tugir milljarða). Það kostar fjögurra manna fjölskyldu 1000 kr. að fara þar um. Sá Herjólfur sem nú siglir er að fullu afskrifaður og kostnaður við Landeyjahöfn er innan við 4 milljarðar. Kostnaður fjögurra manna fjölskyldu (tveir fullorðnir, einn unglingur og eitt barn) við að fara með sinn einkabíl fram og til baka milli lands (Þorlákshafnar) og Eyja er hins vegar 35.880 kr. þegar fullt gjald er greitt og farið er í koju. Ekki þarf að minna á að engin önnur leið er fyrir bíla milli lands og Eyja. Fjölskylda sem fer einu sinni í mánuði þessa leið greiðir á ári 430.560 kr. fyrir það að fara eftir þjóðveginum að heiman og heim.“

Það er líka stór spurning sem við þingmenn þurfum að velta fyrir okkur hvað við getum gert til að koma á móts við það að Vestmannaeyingar borgi svona mikið fyrir að keyra þjóðveginn á meðan að aðrir landsmenn keyra í gegnum göng sem kostað hafa fleiri tugi milljarða á síðustu árum og borga ekki neitt fyrir það. Það er mismunun.

Síðan þarf ekkert að ræða til dæmis um heilbrigðismál í Vestmannaeyjum, þau standa að mörgu leyti ágætlega, en það er fæðingarþjónustan. Á síðasta ári fæddust á milli 50 og 60 börn í Vestmannaeyjum, af Vestmannaeyingum, en þar af bara þrjú í Vestmannaeyjum sjálfum. Sem er náttúrlega alveg stórkostleg tölfræði, að í 4 þús. manna bæjarfélagi sem skilar slíkum tekjum til Íslands og inn í ríkissjóð sé ekki hægt að halda úti fæðingarþjónustu með skurðlækni og skurðstofuvakt. Það er bara óásættanlegt fyrir það bæjarfélag sem er eitt það fremsta í hrávinnslu á landinu og þar eru mjög erfið og hættuleg störf.

Til dæmis heyrði maður sögur af því hjá Vestmannaeyingum þegar maður var þar á ferð í fyrra að fólk varð að hætta við að fara upp á land vegna þess að það komst ekki um borð í ferjuna. En ný ferja mun leysa það að mörgu leyti. Ferðir munu verða tíðari og hún er stærri og tekur fleiri farþega, svona svipað og áður, og það mun gjörbreyta öllu fyrir Vestmannaeyinga. Þetta eru þeirra orð en ekki mín. Þeir telja það sjálfir að þetta muni gjörbreyta öllu lífi í Vestmannaeyjum. Það hefur reyndar komið fram um ferðaþjónustuna, kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, hversu gríðarleg aukning ferðamanna hefur verið til Vestmannaeyja sem hefur lyft öllu á annað plan hvað varðar atvinnu og annað. Við sem höfum komið þangað vitum hvernig það er.

En ég fagna því að frumvarpið skuli vera komið fram og ég trúi því að fagnað sé í Vestmannaeyjum í dag. Ég vona að þetta sé skref í þá átt að milli lands og Eyja verði fullkomnar samgöngur. Þær verða kannski aldrei fullkomnar, ekki er hægt að segja það, en þær verða miklum mun betri en þær eru í dag.

Eins og ég nefndi með heilbrigðismálin hefur komið fram að sjúkraflugið hefur líka verið skert. Áður var hægt að fljúga beint frá Vestmannaeyjum með sjúklinga. Það er ekki lengur hægt í dag. Þeir hafa þurft að bíða mun lengur eftir sjúkraflugi sem er náttúrlega alls ekki boðlegt meðan ekki er fullkomin heilbrigðisþjónusta á svæðinu.

Við höfum rætt það áður að fyrir liggur frumvarp, og er búið að liggja lengi, frá hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur um flutning á Landhelgisgæslunni til Reykjanesbæjar, sem væri náttúrlega gríðarlega gott skref, og síðan á Landhelgisgæslan að sjá um sjúkraflug, að minnsta kosti á Suðurlandi og kannski Vesturlandi en gæti síðan verið með verktaka til að sjá um Norður- og Austurland. Það mundi vera til mikilla bóta.

Ég er sammála Elliða Vignissyni sem skrifaði grein í Eyjafréttir fyrir stuttu eða í mars þar sem hann segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það er mín bjargfasta trú að byggð í Vestmannaeyjum eigi flest undir því að hægt verði að treysta samgöngur um Landeyjahöfn á næstu árum. Takist það hef ég ekki áhyggjur af framtíðinni.“

Ég er alveg sammála Elliða. Þó að ég sé honum stundum ósammála er ég algjörlega sammála honum í þessu. Umræðan um ferjuna og samgöngumál hefur verið erfið fyrir Vestmannaeyinga. Hún hefur verið mjög erfið í mörg ár. Eins og kom hér fram var ákveðið árið 2008 að fara að smíða nýja ferju. Átta ár eru liðin síðan. Það er óásættanlegt. Við þurfum að sinna því byggðarlagi og mismuna því ekki vegna þess að eins og stendur í stjórnarskrá megum við ekki mismuna neinum. Því miður erum við að gera það með því að vera ekki með fullkomnar, eða eins fullkomnar samgöngur á milli lands og Eyja og völ er á.

Ég fagna frumvarpinu og vona að það fái góðan og skjótan framgang hver sem niðurstaðan verður með fjármögnun og annað eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan. Ég vona svo sannarlega að til bjartari tíma horfi í þessum málum og þetta verði upphafið að einhverju góðu og tími í smíði ferjunnar verði notaður til að vinna að endurbótum í höfninni og komast til botns í því hvernig best er að gera hana þannig að frátafir frá Landeyjahöfn verði sem minnstar. Það er örugglega ásættanlegt ef við næðum því niður í 30 daga á ári, sem væri náttúrlega alveg frábært. En við ráðum ekki yfir náttúruöflum á Ísland, þau spyrja hvorki kóng né prest hvernig þau haga sér. Við þurfum náttúrlega að berjast við þau. En ég vona svo sannarlega, og segi enn og aftur, þetta er gæfuríkt skref fyrir Vestmannaeyinga og okkur landsmenn alla.