145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[17:16]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Ég ætla ekki að hafa þetta langt í dag en langar þó að taka undir með þeim sem hér hafa talað og vekja athygli á mikilvægi framgöngu þessa máls. Vestmannaeyingar hafa árum saman beðið eftir úrbótum í samgöngum. Árið 2008 var það verkefni sett á ís.

Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hefur bent á að Landeyjahöfn sé í rauninni ekki tilbúin, en það er mín skoðun að úrbætur verði ekki án þess að ný ferja verði byggð eins og upphaflega var áætlað að gera. Þess vegna fagna ég þessu máli og því að við séum alla vega komin eitthvað áleiðis. Þetta er einn áfangi, þetta er leið, en hvort þetta er besta leiðin þori ég ekki að segja. En mér finnst mjög mikilvægt, eins og aðrir þingmenn hafa bent á, að núverandi Herjólfur sé ekki seldur vegna þess að í frumvarpinu kemur fram að ekki verði hægt að sigla til Landeyjahafnar nema í 76–89% tilvika á ári, eða 84% samkvæmt miðspá, þannig að við munum þurfa annað skip til að ferja fólk til öryggis til þess að tryggja góðar samgöngur á milli lands og Eyja.

Hér hafa komið fram ýmsir punktar og ég vil draga fram nokkra sem mér finnast skipta mjög miklu máli sem byggja undir þetta mál. Kostnaður á hvern íbúa er mun lægri þegar menn geta siglt á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Innanlandsflug er mjög kostnaðarsamt. Það er varla valkostur fyrir fjölskyldur þegar þær þurfa að sækja sér þjónustu upp á land. Það er því mikil búbót fyrir heimili í Vestmannaeyjum að hafa ferðir í Landeyjahöfn með góðu skipi, öruggar samgöngur. Samstaða heimamanna er góð. Eins og fram hefur komið er þetta ekki einfalt mál og menn hafa tekist á um hvaða leið sé best að fara. En menn segja að fyrst höfnin sé komin í Landeyjum sé næsta skref að byggja þessa ferju. Við getum ekki stoppað núna.

Eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason nefndi áðan, þá vilja þeir bara alls ekki fara til baka sem hafa samanburðinn, sem hafa þurft að sigla á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og svo aftur upp í Landeyjahöfn. Það hefur líka sýnt sig varðandi atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum að þegar Herjólfur hefur ekki náð að sigla í Landeyjahöfn heldur hafa menn þurft að fara gegnum Þorlákshöfn, þá hafa ferðaþjónustuaðilar lent í massífum afbókunum jafnvel stórra hópa sem hafa ætlað sér að halda árshátíð eða þorrablót eða hvað það nú er. Þetta óöryggi í samgöngum, að Herjólfur hefur ekki oftar getað siglt í Landeyjahöfn en raun ber vitni, hefur skaðað atvinnulíf í Vestmannaeyjum mjög mikið. Ný ferja mun án efa byggja undir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum, ferðaþjónustuna, og að sjálfsögðu þurfa allir flutningar, þá sérstaklega fiskflutningar, að ganga vel og örugglega fyrir sig.

Annað atriði sem nefnt hefur verið og ég vil draga fram hér varðar sjúkraflugið. Hv. þm. Páll Valur Björnsson nefndi áðan að það varð afturför þegar sjúkraflugið frá Vestmannaeyjum hætti vegna þess að aðstæður í veðri eru mjög oft þannig að hægt er að fljúga frá Eyjum upp á land en ekki endilega til Eyja. Ég tel að öryggi íbúa í Vestmannaeyjum hafi verið skert með þeirri breytingu. Með því að tryggja öruggari samgöngur á sjó er alla vega einhver úrbót gerð á því. En ég mundi vilja ganga lengra og breyta jafnframt planinu á sjúkrafluginu.

Þegar maður gúglar, eins og það heitir á lélegri íslensku, umfjallanir staðarblaðanna í Vestmannaeyjum, þ.e. eyjar.net og eyjafrettir.is, finnur maður fjölmargar greinar um samgöngumál og Herjólf. Það sýnir manni svo ekki er um að villast að heilbrigðisþjónusta í Vestmannaeyjum og samgöngurnar eru stóra málið. Það er það sem fólk talar um. Það er það sem fólk kallar eftir úrbótum á. Frumvarpið sem nú er til umfjöllunar er liður í úrbótum á samgöngum. Ég fagna því.

Ég prentaði að gamni mínu út frétt, ég held hana sé að finna á eyjar.net frá 11. janúar á þessu ári. Í fréttinni kemur fram að Herjólfur hafi siglt í 189 daga í Þorlákshöfn árið 2015 á síðasta ári, fór 345 ferðir á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Miðað við þær upplýsingar má gera ráð fyrir að Herjólfur sé fleiri daga í Þorlákshöfn en í Landeyjahöfn. Þetta er sennilega prentvilla. Þetta á að vera örugglega samanlagt 345 ferðir, þar af 189 dagar í Þorlákshöfn. Einhverja daga kann hann að hafa siglt í báðar hafnirnar. Þegar ég fletti í gegnum staðarblöðin áðan sá ég frétt frá 15. apríl um að fyrsta ferð á þessu ári hafi verið farin þann dag. Því var fagnað með grillveislu í Vestmannaeyjum. Landeyjahöfn var lítið notuð í allan vetur og það skerðir samgöngur fólks í Vestmannaeyjum gríðarlega.

Eftir að hafa prófað að sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og svo aftur frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja þá hika ég og fer síður til Vestmannaeyja ef ég þarf að fara frá Þorlákshöfn vegna þess að maður verður bara veikur. Það er erfitt ferðalag fyrir landkrabba að sigla kannski í þrjá tíma, jafnvel fjóra, í alla vega veðri. Ég skil vel að fólk vilji ekki fara til baka í það.

En við erum alla vega komin hingað með þessu frumvarpi. Förum okkur hægt og bíðum með að selja gamla Herjólf þegar við fáum nýja skipið. Við skulum leyfa nýja skipinu að sanna sig svo ekki verði þjónustuskerðing fyrir íbúa Vestmannaeyja.

Að lokum langar mig til að nefna að í meðferð þessa máls var haft mjög gott samráð við fjölda aðila sem þarna eiga hagsmuni, þar með talið innanríkisráðuneytið, Vegagerðina, Ríkiskaup, Vestmannaeyjabæ og erlenda og innlenda ráðgjafa á sviði skipahönnunar og hafnargerðar. Málið er flókið en vel hefur verið vandað til verksins. Um er að ræða úrbætur í samgöngumálum. Því styð ég málið og vona að það fái góða framgöngu hér á Alþingi.