145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

handtaka og afhending manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar.

617. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Nefndarálitið er flutt af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Málið kom einnig fyrir nefndina á síðasta þingi og var afgreitt frá nefndinni en náðist ekki að klára fyrir þinglok og er því komið óbreytt aftur til þingsins. Við tókum málið aftur fyrir í nefndinni og er skemmst frá því að segja að það er komið hér óbreytt aftur til 2. umr. í þinginu.

Frumvarpið byggist á samstarfi og Evrópulöggjöf og er lagt til að sameinuð verði ákvæði gildandi laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða, og ný lagaákvæði sem leiðir af skuldbindingum Íslands vegna samnings um málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs sem var undirritaður 28. júní 2006. Þetta hefur því verið lengi í undirbúningi. Við fórum yfir alla helstu þætti málsins og gengum úr skugga um að öll mannréttindi og allar synjunarástæður væru ásættanlegar fyrir okkur og fengum umsagnaraðila til að koma og fjalla um málið á síðasta þingi og fullvissuðum okkur um það að hér værum við ekki að ganga neitt á mannréttindi íslenskra ríkisborgara. Í raun og veru snýst þetta um samstarf og til að við getum fengið afhenda menn til okkar er mikilvægt að við tökum þátt í samstarfi og afhendum menn á móti, en að uppfylltum skilyrðum, þ.e. að uppfyllt séu öll ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og þeirra samningsviðauka sem hafa lagagildi hér á landi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Árnason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Haraldur Einarsson og Svandís Svavarsdóttir, en Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.