145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[17:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari útskýringu og legg áherslu á að það kemur fram í þessum umræðum að hér er talað um víðan skilning á þessu. Það má kannski vera eitthvert óþarfapjatt í mér, en mér hefði fundist rétt líka að breyta heitinu á embættinu.

Ég fagna, virðulegi forseti, þeirri breytingu sem hefur verið gerð á því hvernig hægt sé að leggja fram skýrslubeiðni vegna þess að það var svolítið þröngt í tillögunum eins og þær voru, þar áttu það að vera þingflokkar eða þingnefndir. Nú er ljóst að níu þingmenn geta tekið sig saman og beðið um skýrslu og þurfa hvorki að spyrja kóng né prest hvort þeir geti það. Mér finnst það til mikilla bóta.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, af því að síðan segir í nefndarálitinu — þetta er mjög flott nefndarálit, finnst mér — að það verði að virða og taka tillit til þess að ríkisendurskoðandi eða forstöðumaður stofnunarinnar sé sjálfstæður í störfum sínum, stofnunin sé sjálfstæð og það er rétt, en hins vegar finnst mér stundum eins og menn fari með sjálfstæðið þannig að þá geti stofnunin gert hvað sem hún vill. Ég held nú að ef það kemur beiðni frá níu þingmönnum sem er samþykkt í þingsal um að stofnunin geri eitt eða annað þurfi að vera ansi sterk rök fyrir því að stofnunin, eða forstöðumaður hennar, ríkisendurskoðandi, segi: Nei, ég er sjálfstæð og ég þarf ekkert að gera þetta, ég ákveð það bara sjálf. Ég vil sem sagt leggja áherslu á að mér finnst það skipta máli að menn mega heldur ekki fara með sjálfstæðið út í öfgar.