145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[17:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta mál. Mig langar þó aðeins að koma inn á það hér. Ég ræddi þetta mál þegar það var hér í þinginu síðast og lýsi ánægju minni með niðurstöðu þess. Nefndin hefur borið gæfu til að komast að góðri niðurstöðu að flestu leyti a.m.k. varðandi þær áhyggjur sem ég hafði um málið. Ráðin hefur verið bót á því og nefndin hefur komist að góðri niðurstöðu. Ég ræddi einmitt hvort það ætti að heita ríkisendurskoðandi eða stofnunin sjálf, með vísan til þess að hér er einnig rætt um umboðsmann Alþingis, sem varðar þann forstöðumann. Þetta er kannski með svipuðum hætti.

Mér fannst hins vegar ekki rökstutt sem fram kemur um starfskjör ríkisendurskoðanda, að kjararáð haldi áfram að ákveða laun hans. Þá er þá vitnað til þess þingið ákveði laun umboðsmanns og hefur ekki verið talin ástæða til að breyta því þrátt fyrir að það sé starfsmaður Alþingis, þ.e. að Alþingi ákveði launakjör hans og þau taki mið af hæstaréttardómurum, minnir mig. Ég skildi því ekki af hverju þetta er ekki gert með svipuðum hætti og varðandi umboðsmann, því að ég lít á umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðanda sem svipaða starfsmenn undir þinginu. Báðir eru þeir einhvers konar trúnaðarmenn þingsins. Það var það eina sem mér fundust ekki vera færð bein rök fyrir.

Mér finnst líka gott að forsætisnefndin tilnefni ríkisendurskoðanda eða skipi hann til sex ára. Í frumvarpinu er lagt til að hann verði kosinn af þinginu og að það megi endurkjósa hann einu sinni. Ég held að það sé afar mikilvægt að við tökum á þeim þætti, að starfstími hvers og eins sé ekki lengur en 12 ár. Þá tapast ekki þekking og svo verður fólk um leið ekki fast á fleti í svona viðamiklu og viðkvæmu starfi.

Við ræddum mikið hvort viðkomandi eigi að vera löggiltur endurskoðandi eða ekki. Ég verð að segja að ég er afar ánægð með niðurstöðuna því að ég tel að við hefðum þrengt hópinn gríðarlega ef við hefðum haldið okkur við að velja bara endurskoðendur, ekki bara með því að einskorða það við endurskoðendur, sem er ekkert gríðarlega stór hópur á okkar litla landi, heldur hefði margt orðið út undan sem hér er tíundað, m.a. varðandi stjórnsýsluna og ýmislegt annað sem tilheyrir því. Þó svo að eðli málsins samkvæmt sé lögð áhersla á reikningsskilin og ríkisreksturinn og annað því um líkt held ég að við getum fundið fólk úr fleiri stéttum en stétt endurskoðenda sem er ekki síður vel til þess fallið að sinna þessu starfi. Ég er afskaplega ánægð með þá breytingu.

Starfssvið Ríkisendurskoðunar tekur til eftirlits með framkvæmd fjárlaga og á stofnunin að vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagasmálefni ríkisins. Það er gott að skerpa á því gagnvart þingnefndunum sérstaklega. Það er alltaf betra að hafa það skýrt í lögum fremur en að vera með einhverjar túlkanir á því hvað fellur til og hvað ekki þannig að heilt yfir skerpa þessi lög töluvert á því sem ríkisendurskoðandi og starfsfólk hans eiga að taka sér fyrir hendur.

Mér finnst líka til bóta að fela stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd frekar en forsætisnefnd beiðnir varðandi skýrslur og annað slíkt. Það er í samræmi við hina nýju skipan í þingnefndum okkar að eftirlitsnefndin hafi það utanumhald fyrst og síðast. Ég tel það vera til bóta. Og eins og hv. framsögumaður kom inn á varðandi þingmannaréttinn er skynsamlegt að loka ekki á það í því formi, eins og hugmyndin var, að þingflokkar eða nefndir þyrftu í heilu lagi að samþykkja eitthvað slíkt. Þá er það lokað inni hjá meiri hluta hvers tíma ef fara þarf þannig inn, sérstaklega þegar kemur að þingnefndum. Ég held að það sé gott að geta jafnvel verið með þverpólitískar beiðnir sem felast í því að þingmenn geti beðið um slíkar skýrslur.

Það er því ýmislegt sem mér þykir ljómandi gott þarna, og eins það hvers konar skýrslur átt er við. Hér er enn og aftur verið að færa það í orð sem ríkisendurskoðandi og hans fólk gera. Þau sinna ýmsum verkefnum, t.d. varðandi frumeftirfylgnisskýrslur og lokaskýrslur, en það er ágætt að hægt er að óska eftir því líka.

Farið er ofan í það hvernig ríkisendurskoðandi á að koma að málum, sérstaklega varðandi samstarf eða það sem skarast við verksvið umboðsmanns. Það er útskýrt ágætlega hér og snýr fyrst og síðast að rekstrinum eða fjárhagsmálunum. Ríkisendurskoðandi getur auðvitað lagt til breytingar á löggjöf og annað slíkt en fer ekki inn á hlutverk umboðsmanns nema í algjörum undantekningartilvikum og þá einmitt með þeirri forskrift.

Hér er talað um kynningu á skýrslunum. Ég hefði gjarnan viljað sjá það eins og viðrað er í nefndarálitinu. Ég tek undir það orðalag sem hér er notað um að þetta sé kannski til þess fallið að auka aga hjá nefndinni að skýrslur komi þar fyrst til kynningar af því að ríkisendurskoðandi kemur oft á fund okkar í fjárlaganefnd, einkum vegna ýmissa eftirfylgniskýrslna og snerta flesta starfsemi ríkisins. Þá finnur maður einmitt að það gæti verið skynsamlegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri búin að fjalla um málið og spyrja spurninga áður en skýrslan er lögð fram. Þá ættu þingflokkar og þingmenn að geta verið upplýstir í gegnum fulltrúa sinn og fengið að vita um hvað málið snýst, en það er auðvitað gert með ýmsu móti. Í Noregi er það gert með þessum hætti, en þar eru færri og umfangsmeiri — er sagt hér, en í Svíþjóð er þetta svipað og hérna og Danmörku er það með allt öðrum hætti. Í praxís er svo sem hægt að gera það, kjósi nefndin að gera það, þó að það sé ekki lögfest hér. En ég hefði alveg viljað sjá það gert.

Það er líka gott að árétta að Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Það er mjög mikilvægt að það sé áréttað, alveg eins og að þingnefndir eru ekki háðar framkvæmdarvaldinu.

Svo er þetta með hæfisreglur starfsmanna til að tryggja hlutleysi. Það er afar mikilvægt að koma því hér inn. Það er þannig með okkur þingmenn og aðra sem starfa í stjórnsýslunni að maður þarf oft og tíðum að meta eigið hæfi. Það hafa nú verið skiptar skoðanir um það, en kannski er óhjákvæmilegt að breyta því. Kannski er ekki önnur leið fær ef til þess kemur en að aðilinn geri það sjálfur hverju sinni.

Ég velti aðeins fyrir mér hvað átt sé við með því að ríkisendurskoðandi afmarki stjórnsýsluúttektir sínar, að hann gæti þess sérstaklega að afmarka stjórnsýsluúttektir sínar við meðferð á nýtingu ríkisfjár. Verið er að tala um hagkvæmni og skilvirkni varðandi stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins, að framlögin skili sér og að þeim árangri sé náð sem að er stefnt. Ég átta mig ekki alveg á því hvað átt er við, en ég veit að hv. framsögumaður ætlar að koma í andsvar við mig og þá getur hann kannski útskýrt fyrir mér hvað verið er að meina með afmörkun. Ríkisendurskoðandi kafar ekki ofan í hvern einasta lið í öllu bókhaldi, hann kæmist náttúrlega ekki yfir það frekar en að endurskoða allt til fulls það sem undir ríkisreikningi á hverju einasta ári. Ég varpa því hér fram.

En ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég er mjög ánægð með þetta frumvarp svona heilt yfir og held að það sé til mikilla bóta þó að ég hafi viðrað hér einhver álitaefni sem hægt væri að færa að mestu í praktíkina nema þetta varðandi kjaramálin.