145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[18:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er einmitt mjög mikilvægt í svona stóru máli, ég tek undir það, að gera grein fyrir sjónarmiðum sem reifuð eru, þau voru líka reifuð hér í umræðunni þegar málið kom fram. Eðli málsins samkvæmt gerir maður ráð fyrir því að ekki sé endilega hægt að ná öllu fram sem allir nefndarmenn vilja. En ég tek undir að það er mikilvægt að um svona starf, við erum hér með trúnaðarmann þingsins, ríki sátt. Ég held að það sé eitthvað sem við séum alveg sammála um. Þess vegna, eins og hv. þingmaður sagði, eðli starfans vegna sé það mikilvægt.

Varðandi kjörin er alveg rétt að það er kjararáð sem ákveður laun hæstaréttardómara, forsætisnefnd tekur svo mið af því gagnvart umboðsmanni. Þá spyr maður sig auðvitað um ríkisendurskoðanda. Nú er verið að endurskoða lög um umboðsmann og ég veit ekkert hvernig þau mál standa, hvort hugmyndir eru uppi um að ákvörðun um laun hans fari sömu leið, þ.e. til kjararáðs. Í ljósi rökstuðningsins sem fylgir þessu hér þá fyndist mér það ekkert óeðlilegt til að hafa eitthvert samræmi í þessu. Mér fyndist það þurfa að vera, báðir aðilar á sama stað. Mér finnst að rökin hnígi ekki í aðra átt. En ég skil auðvitað að það er alltaf erfitt fyrir þingmenn að eiga að taka ákvörðun um slíkt, þess vegna er verið að tengja þetta einhverju tilteknu. Þá er það kannski bara hjáleið í staðinn fyrir að hafa ákvörðunina beint undir kjararáði.