145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi starfskjörin þá get ég alveg sagt fyrir mig að ég hefði talið báðar leiðirnar tækar. En eins og ég nefndi áðan og hv. þingmaður vék líka að var það svolítil krókaleið að láta laun og starfskjör ráðast af ákvörðunum kjararáðs án þess að vísa til þess beint í lögunum. Út af fyrir sig veit ég ekki hvernig staðan er varðandi endurskoðun á lögum um umboðsmann, það mál er ekki komið til okkar í þinginu, þannig að ég get ekki tjáð mig um það hvort þetta atriði hafi verið skoðað í því samhengi.

Varðandi skýrslubeiðnir frá þinginu, hv. þingmaður kom nokkuð inn á það í máli sínu, þá held ég að við höfum fundið þarna ágætar leiðir, tvær leiðir, til þess að óska eftir skýrslum ríkisendurskoðanda. Það á eftir að koma í ljós hvor leiðin verður nýtt frekar, en svona fyrir fram og ég held að í störfum nefndarinnar hafi menn kannski reiknað almennt með því að þetta færi í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en hitt væri þá leið fyrir þingmenn utan nefndarinnar til að koma beiðnum á framfæri ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sinnti af einhverjum ástæðum ekki ábendingum um að taka málin fyrir.

Varðandi kynningu á skýrslunum má segja að við horfðum til þess eins og hér var nefnt að í Noregi er hún með þeim hætti sem lýst er í nefndarálitinu. En þar eru skýrslurnar töluvert færri (Forseti hringir.) en hér á landi og þess vegna kannski hægar um vik að stilla saman endapunktinn (Forseti hringir.) í starfi ríkisendurskoðanda varðandi skýrslugerðina og síðan fundi í nefndinni. En við horfum líka til þess að það geta komið þau tímabil (Forseti hringir.) að nefndin er ekki að störfum og þá væri dálítið hamlandi ef það væri absalút í lagatextanum (Forseti hringir.) að kynning mætti ekki fara fram nema fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.