145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[18:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá. Það hefur verið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í að minnsta kosti tvo þingvetur og mikið fagnaðarefni að það sé tekið út með sameiginlegu nefndaráliti.

Ríkisendurskoðun er gríðarlega mikilvæg stofnun og skiptir miklu fyrir okkur sem störfum á löggjafarþinginu og sérstaklega ef við ætlum að taka eftirlitshlutverk okkar alvarlega, því að þarna erum við í rauninni að fá upplýsingar, úttektir á málefnum og ýmsar upplýsingar og gögn sem við getum ekki aflað okkur.

Ég hef verið mjög ánægð með hvernig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur á þessu þingi tekið skýrslur Ríkisendurskoðunar til skoðunar. Hér var fyrri ræðumaður að velta fyrir sér með hvaða hætti ætti að taka þær skýrslur fyrir nefndina. Þá er kannski rétt að árétta það að hver einasta skýrsla er tekin fyrir og fær yfirferð hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Sumar eru mjög litlar eftirfylgniskýrslur, það tekur stuttan tíma, en það er ekki þannig að nefndin sé að velja og hafna. Allar skýrslur eru teknar fyrir. Nefndin fær viðkomandi ráðuneyti, stofnun jafnvel, og Ríkisendurskoðun á oft mjög góðar og gagnlegar umræður um skýrslurnar.

Rætt var um þá hugmynd að skýrslurnar ættu að koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áður en þær væru gefnar út opinberlega og hv. framsögumaður fór ágætlega yfir þau rök sem voru rædd í því sambandi. Einnig var rætt hvort Ríkisendurskoðun ætti að koma með skýrslur sínar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áður en þær væru gefnar út þannig að það væri einhvers konar kynning á þeim áður en þær væru fulltilbúnar. Það var rætt aðeins í nefndinni. Ég hafði það sjónarmið að í ljósi þess að Ríkisendurskoðun á að vera algjörlega sjálfstæð og óháð í sínum störfum þá gæti það orkað tvímælis ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fer eitthvað potast í skýrslu sem er ekki tilbúin og vera jafnvel með einhverjar athugasemdir. Það væri þá frekar að taka skýrslur, sem menn eru einhverra hluta vegna ósáttir við, og taka þá umræðu þegar skýrslan væri tilbúin. Þá er ég að hugsa um sjálfstæði Ríkisendurskoðunar sem er gríðarlega mikilvægt.

Ég er mjög ánægð með að því var breytt sem var í frumvarpsdrögunum að forstöðumaður Ríkisendurskoðunar skyldi hafa löggildingu sem endurskoðandi, vegna þess að það takmarkar mjög í okkar litla landi það mannval sem við höfum þegar ráða á nýjan ríkisendurskoðanda. Vissulega eru líkur til þess að löggiltir endurskoðendur geti sinnt því starfi mjög vel svo framarlega sem þeir hafa líka stjórnunarreynslu og annað til að bera. En það má ekki útiloka hæfa manneskju sem hefur góða þekkingu á opinberum rekstri eða jafnvel stjórnsýslufræðum, fjárreiðum ríkisstofnana og hvað það nú er, þótt viðkomandi sé ekki löggiltur endurskoðandi. Í löndunum sem við berum okkur saman við er almennt ekki gerð sú krafa. Í Svíþjóð eru þrír ríkisendurskoðendur og enginn þeirra er löggiltur endurskoðandi. Hins vegar segir það sig sjálft að slík þekking þarf að vera til staðar innan stofnunarinnar. Þessu var breytt.

Ég ætla ekki að hafa þetta neitt lengra. Ég vildi bara koma hingað upp sem áheyrnarfulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fagna því að við tökum málið loksins til 2. umr. og á ekki von á öðru en það muni fara fljótt og vel í gegnum þingið. Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.