145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[17:44]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp sé loksins komið fram, frumvarp um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Aðdragandi málsins hefur verið alllangur og um það hefur verið rætt í samráðsnefndinni um afnám hafta sem ég sit í ásamt nokkrum öðrum þingmönnum úr öllum flokkum. Í töluvert langan tíma hefur verið búist við þessu, nánast í heilt ár. Það er mjög mikilvægt að þetta sé fyrst og fremst verulega vandað. Mig grunar að það sé það sem hefur tafið það að frumvarpið væri lagt fram. Vissulega hefur þetta verið lengi í umræðunni og kemur kannski ekki óvænt fram en nú er það loksins komið. Við í efnahags- og viðskiptanefnd fengum ágæta kynningu á málinu fyrir hádegi, mjög vandaða þar sem komu fulltrúar frá ráðuneytinu og Seðlabanka. Málið er unnið í samstarfi Seðlabankans, forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fenginni ráðgjöf frá ýmsum sérfræðingum um einstaka þætti. Núna er heildarmyndin að koma í ljós. Auðvitað eigum við eftir að skoða málið mjög vel í efnahags- og viðskiptanefnd næstu tvo sólarhringa og strax að loknum þessum fundi verður haldinn fundur í nefndinni til að vísa málinu til umsagnaraðila, til að gefa hagaðilum, sérfræðingum og stofnunum tækifæri á að tjá sig um það við nefndina. Strax á morgun munum við taka á móti gestum, fara yfir allar þessar umsagnir og fá aftur til okkar ráðuneytið og sérfræðinga til að bregðast við því sem þar kemur fram. Nefndin hyggst vinna þetta eins vandað og mögulegt er á þeim skamma tíma sem gefst, tveim sólarhringum, með það í huga að reyna að vinna vandað nefndarálit og hafa það tilbúið hér á sunnudagskvöld fyrir þingið til að skoða nánar. Síðan verðum við vonandi búin að komast til botns í þessu máli og gera frumvarpið að lögum fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun.

Það sem mér finnst vera aðalatriðið í þessu og kannski engin hætta í því fólgin, eingöngu tækifæri, held ég, er að afmarka með skýrum hætti hvað aflandskrónur eru. Hérna kemur afskaplega vönduð skilgreining á því þar sem greinilega hefur verið vandað mjög til verks, a.m.k. við fyrstu sýn. Auðvitað munum við kanna mjög vel í nefndinni hvort eitthvað sé óljóst í þessu. Það er mjög mikilvægt að þessar aflandskrónur séu vel skilgreindar.

Síðan er mælt fyrir því að þær verði bundnar með ákveðnum hætti, þær eru það í dag, og að um þetta verði miklu vandaðri umgjörð en verið hefur. Það gefur Seðlabankanum tækifæri og svigrúm til að halda uppboð á þessum aflandskrónum fyrir þá sem eiga þær til að koma þeim þá úr landi. Það er ekki verið að þrengja að umfram það sem nú er eða takmarka kosti, það er bara unnið að lausn málsins og mikilvægt atriði í starfi nefndarinnar er að kanna hvort hér sé nokkuð gengið á eignarrétt, jafnræði eða einhver önnur stjórnarskrárvarin réttindi. Það munum við að sjálfsögðu kynna okkur mjög vel en ég veit að það hefur verið gert í vinnu ráðuneytanna og þeirra sérfræðinga sem hér hafa komið að verki.

Ekki er vitað hvort það verður áhugi hjá þessum aflandskrónueigendum til að taka þátt í útboðinu. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriði. Aðalatriði í mínum huga er að um þær verði mjög trygg umgjörð. Áfram geta verið viðskipti milli aðila um þessar aflandskrónur á aflandsmörkuðum. Eins og kunnugt er hafa verið viðskipti með þessar aflandskrónur í snjóhengjunni á allt öðru gengi en því gengi sem hér er á evrunni. Núna er gengi evrunnar í kringum 140 en á þessum mörkuðum hefur gengi krónu verið miklu lægra, í þessum aflandskrónum, af ákveðnum ástæðum af því að um þær hafa verið ákveðnar takmarkanir. Þeim hefur ekki verið hægt að ráðstafa með sama hætti og þeim krónum sem hér eru notaðar í hagkerfinu.

Annað mjög mikilvægt kemur líka fram í skýringum með þessu máli, allt sem varðar tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar, og líka er látið að því liggja að það geti tekið töluvert mörg ár að hagkerfið komist í þá stöðu að hægt sé að losa um þá bundnu reikninga sem þessar aflandskrónur lenda inn á eða þau innstæðubréf sem þarna verða bundin á lágum vöxtum. Það getur tekið ansi langan tíma og hér eru færð rök fyrir því að það sé æskilegt að innlendir aðilar og íslensk fyrirtæki, heimili, fyrirtæki og lífeyrissjóðir, þurfi að fá tækifæri til að aðlaga sína áhættudreifingu áður en hægt er að losa um þessa reikninga. Ég held að það sé mikilvægt tækifæri fyrir þá sem eiga þessar aflandskrónur í dag að nýta tækifærið og taka þátt í væntanlegu útboði Seðlabankans til að eyða sinni óvissu.

Hér er ekki verið að sauma að einum eða neinum með óeðlilegum hætti. Nú þegar eru ákveðin höft og það er verið að bjóða upp á fleiri valkosti til að eyða óstöðugleika sem er í kerfinu. Ég lít á þetta sem tækifæri. Við fyrstu sýn líst okkur vel á þetta, a.m.k. mér fyrir mitt leyti. Nefndin mun að sjálfsögðu vinna þetta ötullega eins og hægt er og taka málið á dagskrá að loknum þessum fundi.