145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan vinnur með ríkisstjórninni að því að greiða för þessa máls í gegnum þingið. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra að því marki að það að ekki er enn búið að leggja fram frumvarp sem færir Seðlabankanum stýritæki til að sporna gegn óhóflegum vaxtamunarviðskiptum kemur ekki í veg fyrir að við samþykkjum þetta, síður en svo.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það hefði verið æskilegt að slíkt vopn hefði fylgt með í það vopnasafn sem við þurfum til að vera reiðubúin að takast á við vanda sem gæti stafað af mjög öru innstreymi til Íslands. Ég leyfi mér að efast um að það sé rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að slík tæki skipti ekki svo miklu máli. Ég lít á þau sem heimildir til Seðlabankans ef upp kæmi sérstök staða sem lýsti sér í því að hér yrði tiltölulega skjótt innstreymi. Það getur gerst mjög hratt þó að við höfum kannski ekki séð það áður. Aðstæðurnar núna eru allt öðruvísi en þær voru þegar núverandi stabbi leitaði inn í landið. Vaxtamunurinn er meiri. Í dag búum við t.d. við það að í einu nágrannaríkjanna eru neikvæðir vextir hjá seðlabanka um mínus fjórðung úr prósenti. Seðlabanki Japans kynnti fyrir skömmu vaxtabreytingar sem eru þannig að þar eru stýrivextir líka mínus 0,25. Með öðrum orðum er vaxtamunurinn að aukast og sogkrafturinn á pening inn í íslenskt samfélag þar með líka. Ég lít svo á að heimildir af þessu tagi séu eins konar neyðarhemill sem verður að vera til staðar fyrir Seðlabankann ef hann telur að í óefni stefni, ekki til daglegs brúks. Þannig er mitt viðhorf.

Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) um það áður og þá sagði hann: Það er verið að skoða þetta. Nú kemur hann einhverjum mánuðum síðar og hann er enn að skoða þetta. Hæstv. ráðherra er vaskur maður og ég tel að hann eigi að vinda bráðan bug að því að leggja þetta mál hér fram.