145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða athugasemd. Hún varpar ljósi enn og aftur á tímaskortinn sem þetta mál er undir. Þessi grein var ekkert sérstaklega rædd í meðförum nefndarinnar. Það komu engar umsagnir sem vörðuðu sérstaklega það atriði sem hv. þingmaður spyr um. Auðvitað hefði verið æskilegt að við hefðum gefið okkur tíma til að ræða það.

Ég ætla hins vegar að segja að það er skilningur minn á greininni að þessi eftirlitsheimild, sem er mjög rík, varði eingöngu framkvæmd þessara laga. Þó að það hefði verið gott að fá umsögn frá Persónuvernd eins og hv. þingmaður bendir á lít ég svo á, aðrir hv. þingmenn í nefndinni geta komið hér upp ef þeir eru annarrar skoðunar, að það sé skilningur okkar í nefndinni að þessi eftirlitsheimild varði eingöngu framkvæmd þessara laga í ljósi þess hvernig fyrsta setning greinarinnar er orðuð. Heimildarákvæðið er svo rakið í kjölfar þeirrar setningar. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, herra forseti.