145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni allra stjórnmálaflokka að koma okkur út úr gjaldeyrishöftunum eða fjármagnshöftunum. Fyrsta áætlun þar um birtist árið 2011. Það að lyfta gjaldeyrishöftunum er skilyrði þess að hér sé hægt að halda áfram því stóra verkefni sem hófst strax eftir hrun, að reisa við efnahagslífið og halda áfram að byggja það upp þannig að hér verði áfram byggilegt. Það er áríðandi að skapa þannig þjóðfélag að unga fólkið vilji búa hérna, líti ekki á landið sem dásamlegan sumarleyfisstað og kjósi fremur að lifa lífinu annars staðar vegna þess að þar er betra að byggja sér bú, mennta börnin sín og verða veikur. Þess vegna skiptir alveg verulega miklu máli að gjaldeyrishöftunum, fjármagnshöftunum, verði lyft, til að við getum haldið áfram að byggja hér upp efnahagslífið og búa til gott samfélag.

Stórt skref var stigið í losun gjaldeyrishaftanna þegar kröfubú föllnu bankanna voru gerð upp en þeim var komið undir gjaldeyrishöft í mars 2012. Við í Samfylkingunni höfum eftir því sem við best höfum getað stutt þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur staðið að til að afnema gjaldeyrishöftin. Okkur finnst það skylda okkar. Við samþykktum lögin um stöðugleikaskattinn á síðasta ári. Við sátum hins vegar hjá við breytingar á tekjuskattslögunum sem greiddu fyrir nauðasamningum við kröfuhafana. Það var vegna þess að öll upplýsingagjöf um stöðugleikaframlagið var mjög gruggug og ógagnsæ. Við treystum okkur þess vegna ekki til að standa að þeirri löggjöf enda hefur komið í ljós síðar að það var full ástæða til allrar tortryggni um hvers vegna stjórnvöld hurfu frá stöðugleikaskattinum og lögðu höfuðáherslu á að greiða fyrir nauðasamningum með breytingu á tekjuskattslögunum. Við sátum hjá við þá breytingu.

Ég fæ ekki annað séð en að allt það sem meginmáli skiptir sé uppi á borðum hvað varðar þessa löggjöf hér. Mér finnst eins og öðrum erfitt að við höfum ekki upplýsingar um hverjir eru eigendur þeirra eigna sem við ætlum nú að meðhöndla eftir sérstökum reglum. Það kom fram í nefndarstarfinu að reynt hefði verið að afla allra upplýsinga þar um en það hefur ekki tekist og þó hafi verið leitað ýmissa leiða og notuð þau tæki sem m.a. Fjármálaeftirlitið hefur í þeim efnum.

Ég vil segja að ég held að það væri alveg sama hvaða stjórnvöld væru við lýði, það breytti því ekki að þessara upplýsinga var ekki hægt að afla. Þá verður að meta það. Er það að vita þetta ekki nákvæmlega ástæða til að styðja ekki þessa veigamiklu aðgerð? Ég tel svo ekki vera þó að mér finnist það ljóður á málinu. Ég vil taka fram að eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur var gerð grein fyrir því fyrir nefndinni að í útboðsskilmálum fyrir gjaldeyrisútboð Seðlabankans eru sett skilyrði um að milligönguaðilar gefi upplýsingar um hina raunverulegu eigendur ef óskað er eftir því. Það skiptir máli.

Frumvarpið er mjög flókið, það er hárrétt, en það eru stórir drættir í því. Í fyrsta lagi er skilgreining á hvað aflandskrónueignir eru. Þó að við höfum lengi talað um aflandskrónueignir hafa þær ekki verið skilgreindar og hér er nú skilgreint hvaða eignir það eru sem eru líklegar til að leita út úr landinu ef gjaldeyrishöftunum verður lyft og þar með stofna fjármálastöðugleika landsins í hættu. Það er skilgreiningin. Þess vegna erum við að setja þessi lög. Það er hætta á því að þessar eignir fari út úr landinu og setji hér allt á hvolf.

Í öðru lagi, ef ég segi þetta í mjög grófum dráttum, eru svo fyrirmæli um hvernig farið verði með þær aflandskrónueignir sem eftir verða þegar gjaldeyrisútboð Seðlabankans er afstaðið. En gjaldeyrisútboðið hefur eins og við vitum verið fyrirhugað í nokkurn tíma. Þegar hér var rætt um tekjuskattsbreytingarnar í vetur var alltaf talað eins og gjaldeyrisútboðið færi fram á fyrstu mánuðum þessa árs en nú erum við komin í lok maí. Ég ætla að trúa því að seinkunin hafi verið vegna þess að menn voru að undirbúa sig, að þeir sérfræðingar sem eru fyrst og síðast ábyrgir fyrir vinnunni við þetta frumvarp hafi verið að vanda sig sem mest þeir máttu og það hafi tekið lengri tíma.

Það kom líka fram í umræðum hér fyrir jól, og ég tek alveg fullkomlega undir það, að auðvitað er svolítið súrt í broti að við förum í gjaldeyrisútboð áður en við getum opnað fyrir almenning eða íslensk fyrirtæki. Auðvitað er það súrt í broti en ég held að þetta sé tíunda eða ellefta gjaldeyrisútboðið og það er vegna þess að það er sú leið sem við höfum haft til að rýma fyrir til að hitt sé hægt. Það var alveg fullkomlega skýrt í umræðum um breytinguna á tekjuskattslögunum að fyrst þyrfti gjaldeyrisútboðið að fara fram og síðan væri hægt að losa um hjá öðrum og þá var mest talað um lífeyrissjóðina.

Aðrar greinar frumvarpsins eru um hvernig fara eigi með þegar búið er að læsa þessar aflandskrónueignir inni. Strax núna er lögð fram breytingartillaga við 12. gr. frumvarpsins sem er um heimild til að greiða þeim einstaklingum sem kæmu til með að eiga eitthvað inni á þessum sérstöku lokuðu reikningum sem stofnaðir verða samanlagt 6.000.000 kr. á almanaksári. Nú þegar er flutt sú breytingartillaga að þetta verði lækkað niður í 1.000.000 kr. Af hverju er sú breytingartillaga lögð fram? Jú, hún er lögð fram til þess að vera alveg örugg um að þarna verði ekki of mikið útflæði. Eins og kom fram í máli framsögumanns nefndarálitsins er hægt að endurskoða þetta síðar. Öryggissjónarmið, virðulegi forseti.

Í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra á föstudaginn vakti hv. þm. Össur Skarphéðinsson athygli á þeirri mótsögn sem í rauninni er í tilverunni hjá okkur þessa dagana. Á meðan við erum að gera ráðstafanir til að losa um snjóhengju sem myndaðist vegna vaxtamunarviðskipta fyrir hrun hafa vaxtamunarviðskipti hafist að nýju og við höfum engin tæki til að bregðast við þeim.

Í nefndaráliti meiri hlutans er vikið að þessu atriði og ég tel það mjög mikilvægt. Þar segir orðrétt að nefndin bendi á „í þessu samhengi“ og þar er um að ræða ráðstafanir sem gerðar hafa verið um afnám gjaldeyrishafta „að í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Seðlabanka er unnið að ráðstöfunum til að stemma stigu við innflæði á kviku fé og leggur áherslu á að slík áform nái fram að ganga“. Þetta er mjög mikilvægt atriði og það er mjög mikilvægt að það sé í nefndarálitinu. En þetta leiðir líka hugann að því að íslenska krónan er einn helsti veikleiki íslensks efnahagslífs og að sérstakar ráðstafanir eru nauðsynlegar til að hún kollsigli ekki efnahagslífinu eina ferðina enn. Það er langtímahugsun og því er nauðsynlegt að atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu fari fram hið fyrsta, eins og stjórnarflokkarnir lofuðu reyndar báðir. Við þurfum að fá úr því skorið hvort við náum viðunandi samningum við Evrópusambandið og að við fengjum í gegnum myntsamstarf þess þann stuðning við krónuna sem nauðsynlegur er til að halda hér uppi stöðugu efnahagslífi til langframa.

Mér er alveg ljóst að þetta verður ekki á morgun eða hinn en það er bráðnauðsynlegt að leita allra leiða til að styðja við þann örgjaldmiðil sem krónan er. Því fyrr sem við leggjum af stað til að finna lausn til frambúðar, þeim mun fyrr munum við finna hana og þeim mun betra er það.

Það er full ástæða til að minnast á þverpólitískt samráð varðandi þetta frumvarp, eða öllu heldur skort á því. Samráðið í þessu máli hefur verið lítið sem ekkert. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það ámælisvert af þeim stjórnmálamönnum sem hafa verið í fyrirsvari fyrir verkefninu að hafa ekki leyft stjórnarandstöðunni að fylgjast betur með en raun ber vitni.

Það mikla frumvarp sem liggur nú fyrir að greiða atkvæði um hér í kvöld var fyrst kynnt fyrir stjórnarandstöðunni á fimmtudaginn var og þá bara einum úr hverjum flokki. Efnahags- og viðskiptanefnd skilaði síðan nefndaráliti hálfri mínútu áður en þingfundur var settur hér í kvöld vegna þess að meiri tími gafst ekki til þess, ekki það að einhver hafi verið að slugsa, alls ekki. Það þurfti bara þann tíma en ég verð að segja hreint út að mér finnst það samt ámælisvert fyrir þá í ríkisstjórninni sem eru ábyrgir fyrir þessari vinnu.

Það má velta fyrir sér hvort samráðsleysið sé vegna þess að málið er fyrst og síðast tæknilegt. Um það er ekki pólitískur ágreiningur og þess vegna hefur væntanlega ekki verið mikil pólitísk vinna á undanförnum mánuðum um þetta frumvarp. Það hefur allt verið í Seðlabankanum og svo hjá sérfræðingum ráðuneytisins. Þess vegna er alveg ósatt sem menn hafa sagt í annarri stjórnmálaumræðu hér sem kemur þessu máli ekki beint við, en ég get ekki látið hjá líða að minnast á, og þess vegna er bara tómt bull að ekki hafi verið hægt að kjósa af því að þessi vinna væri í gangi. Þessi vinna hefur verið unnin af sérfræðingum. Ég leyfi mér að virða þeim pólitíkusum sem ábyrgir eru fyrir málinu það til vorkunnar að þeir hafi bara ekki fattað að þeir þyrftu að bera þetta undir aðra pólitíkusa vegna þess að þetta var svo lítið á þeirra borði. Kannski er það ástæðan fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir þetta nefndarálit og ég og við í Samfylkingunni munum greiða frumvarpinu atkvæði okkar. Við teljum það skyldu okkar að hjálpa ríkisstjórninni eins og við mögulega getum og þegar við mögulega getum við það stóra verkefni að lyfta gjaldeyrishöftum til að við getum skapað hér gott mannlíf, gott þjóðfélag. Þess vegna gerum við það og viljum ekki skjótast undan því.

Við greiddum ekki atkvæði með tekjuskattslögunum enda var það gruggugt en þetta er alveg hreint.