145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það aldrei þægilegt eða ákjósanlegt að þurfa að standa að lagasetningu í flýti og hafa skamman tíma til að setja sig inn í margar greinar í flóknu frumvarpi. Samt eru svo sem fordæmi fyrir því á undanförnum árum að þingið hafi þurft að vinna þannig. Neyðarlögin eru dæmi um slíkt frumvarp sem þurfti að afgreiða í flýti við mjög erfiðar kringumstæður. Eins þegar mjög mikilvæg löggjöf var sett á síðasta kjörtímabili sem lokaði kröfuhafa inni í gjaldeyrishöftum, það þurfti allt að gerast mjög skjótt. Þetta frumvarp er líka þannig að það þarf að samþykkjast, og fyrir því eru rík rök, á meðan markaðir eru lokaðir svo þessi aðgerð heppnist öllsömul. Ég hef skilning á því að hér hafi þurft að vinna hratt og verð að segja að ein ástæðan fyrir því að ég er á þessu nefndaráliti og Björt framtíð styður málið er að á þeim þremur kynningarfundum sem mér hafa boðist, sem meðlimi í samráðsnefnd um afnám hafta, sem meðlimi í þingflokki Bjartrar framtíðar og í efnahags- og viðskiptanefnd, hefur spurningum mínum um þetta og spurningum annarra að mínu mati verið svarað vel. Málið hefur verið vel undirbyggt, t.d. með áliti frá Davíð Þór Björgvinssyni um stjórnarskrárhluta málsins og svo frá fleiri lögfræðingum. Umsagnir voru gagnlegar og umfjöllun um þær allar og að sjálfsögðu gafst kostur á að spyrja spurninga við hefðbundna þinglega meðferð málsins þannig að ég tel mig vel færan eftir þessa yfirferð, vissulega í flýti, til að styðja þetta mál.

Það markar líka mína afstöðu að ég lít ekki svo á að þetta sé mál sem kemur að handan eða út úr sauðarleggnum eða af himnum ofan, eftir því hvernig á það er litið, einhvern veginn á óvart. Ég lít á þetta sem hluta af boðaðri áætlun um afnám hafta sem er ekki eitthvað sem þessi ríkisstjórn sem núna situr fann upp á heldur á rætur sínar að rekja í fyrra kjörtímabil og sem meira eða minna þverpólitísk sátt hefur ríkt hér um. Sem meðlimi í samráðsnefnd um afnám hafta var mér kynnt það fyrir þó nokkru að eitthvað í þessum dúr stæði til, að löggjöf sem yrði með þessum einkennum kæmi fram og hún átti í rauninni að koma fram fyrr. Þetta kemur mér ekki á óvart.

Þetta er vissulega flókið mál vegna þess að þetta er ákveðinn línudans. Það má ekki ganga of langt í að takmarka stjórnarskrárvarinn eignarrétt fólks. Það þarf að gæta meðalhófs eins og framsögumaður fór yfir í upphafsræðu umræðunnar. Það eru auðvitað alls konar takkar í þessu sem þurfa að vera rétt stilltir. Að mínu viti eru þeir það eins og ég lít á málið. Við erum vissulega í þessu frumvarp að afmarka ákveðnar eigur og skilgreina þær. Við erum að segja að þessar eigur skuli háðar vissum takmörkunum. Þá ber á það að líta að þessar eigur eru háðar takmörkunum nú þegar þannig að það er ekki eins og verið sé að taka eitthvað sem er fullkomlega frjálst og setja það í spennitreyju sem væri nýbreytni. Þetta eru eignir sem eru háðar takmörkunum, aflandskrónur sem verða áfram háðar takmörkunum. Lagafrumvarpið gengur út á að skilgreina þessar takmarkanir og eigur.

Svo má líka horfa á það við hvaða kringumstæður þetta frumvarp er lagt fram. Það eru kringumstæður hafta. Höft eru takmarkanir á eigum okkar allra. Ég sem íslenskur borgari og við öll væntanlega búum við takmarkanir á okkar eignarrétti og við erum með svona frumvörpum, þessu og fleiri frumvörpum, m.a. frumvarpi um stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaskatt, að setja ákveðnar takmarkanir á ákveðna eignaflokka með það að markmiði að reyna að létta höftum, takmörkunum, af okkur öllum. Ég má t.d. ekki, og stendur ekki til, hvort sem ég mætti það eða ekki, fjárfesta umtalsverðum upphæðum erlendis. Það eru höft. Ég má ekki fjárfesta í Apple eða einhverju slíku. Þetta eru kringumstæðurnar. Það er svolítið mikilvægt þegar einhverjir koma, eins og gerðist fyrir nefndinni, og benda á að hér séu einhverjar óeðlilegar takmarkanir á rétti þeirra sem eigenda aflandskróna til að gera einhverja ákveðna hluti. Það þarf líka að setja þetta í það samhengi að við erum öll í höftum og við erum öll bundin takmörkunum. Hér erum við að reyna að marka og varða leiðina að því að reyna að aflétta þessum höftum. Mér finnst hún hafa verið ágætlega skilgreind hingað til. Skilgreindir hafa verið vissir stabbar af erlendum eigum sem geta ekki farið út úr hagkerfinu, m.a. vegna þess að við búum við mjög lítinn gjaldmiðil, en það er önnur saga, þó tengd. Það er búið að skilgreina þessa stabba og það á að hleypa þeim út einum af öðrum með það að markmiði að reyna að aflétta höftum endanlega. Við erum búin að glíma við þann vanda sem fólst í því að erlendir kröfuhafar gömlu búanna sem sumir voru reyndar síðan íslenskir, og eru, við erum ekki endilega að tala um þjóðerni, við erum að tala um lögaðila, borga stöðugleikaframlag, skilja í rauninni eftir allar íslenskar eigur á Íslandi, fara ekki út með þær, og það hefur ekki áhrif á greiðslujöfnunarvanda. Næst á dagskrá eru eigendur aflandskróna og þeir þurfa að sæta ýmsum takmörkunum en býðst núna leið út með sinn stabba. Þetta er allt saman gert í því augnamiði að leysa greiðslujöfnunarvandann. Það verður alltaf að hafa það í huga. Það er ekkert annað sem stendur til hérna. Það stendur ekki til að græða mikið af peningum, þetta er ekki gert til að fara eitthvað sérstaklega illa með einhvern ákveðinn hóp af fólki eða út af því að við teljum einhverja vera hrægamma eða eitthvað slíkt. Þetta er gert til þess að leysa greiðslujöfnunarvandann.

Það er alveg ljóst að ef höftum yrði aflétt á morgun, segjum bara sem svo að við værum að fara að aflétta höftum á morgun, yrðu þessir 320 milljarðar þess eðlis, þetta eru eigur sem eru komnar til með þeim hætti að þær væru mjög líklegar til að leita út. Með því að skipta þeim strax á núverandi gengi, opinberu gengi, yfir í evrur mundi það fólk sem heldur á þessum eigum mjög líklega græða mjög mikinn pening. Þetta er bara kalt mat. Þess vegna köllum við þetta kvikar eigur. Þetta eru eigur sem að öllum líkindum mundu leita út vegna þess að eigendur þeirra mundu sjá sér mikinn hag í því að skipta þeim strax yfir í evrur. Þannig lít ég á það. Ég held að þetta hljóti að vera ein ástæðan fyrir því að við þurfum að setja sérstaka löggjöf til að koma þessum eigum út með ásættanlegum hætti. Þetta er fjármagn sem leitar út, það er í eigu erlendra lögaðila og það er eðli þeirra, það er komið til með þeim hætti að menn munu leitast við að skipta þessu fljótt yfir í aðra gjaldmiðla.

Í þessu þarf að gæta meðalhófs, segi ég. Fulltrúar aflandskrónueigenda sögðu fyrir nefndinni að umbjóðendur þeirra vildu raun og veru ekki fara neitt, þeir teldu að á Íslandi væri allt í lukkunnar velstandi, mikill hagvöxtur og blómlegir tímar. Þeir spyrja: Af hverju í ósköpunum þurfum við að sæta einhverjum takmörkunum? Við erum eigendur að krónum eins og aðrir og megum við ekki bara fjárfesta eins og aðrir? Í umfjöllun um málið fékk þetta hið óformlega heiti Hlíðarendaáhrifin. Aflandskrónueigendur mundu segja eins og Gunnar á Hlíðarenda: Fögur er hlíðin, bleikir akrar, slegin tún og mun ég snúa við aftur og fara hvergi.

Þetta eru ákveðin rök. Rökin eru í meginatriðum þau að þetta séu bara fjárfestar sem gangi gott eitt til og vilji bara vera hér með peninginn sinn. Þá eru mjög mikilvæg rök á móti, því fólki sem á þennan pening býðst út af rökstuddu mati á því hvers lags eigur þetta eru að skipta krónunum sínum í evrur í gegnum ákveðið útboðsferli, sem Seðlabanki Íslands hefur hannað og er vonandi málefnalegt og gott, og þá getur þetta fólk skipt þessum eigum sínum yfir í gjaldeyri og einfaldlega komið með hann aftur inn í landið og fjárfest eins og það vill, komið hingað og tekið þátt í að byggja upp blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf ef það vill. Þessum röksemdum er ágætlega mætt í hönnun alls þessa máls.

Allri nauðung er verulega stillt í hóf í þessu. Það er eins og ég segi mjög veigamikill þáttur, en ekki hluti af þessu frumvarpi, að eigendur þessara aflandskrónueigna geta farið í útboðsferli og keypt erlendan gjaldeyri fyrir þessar eigur í gegnum það ferli. Það er eitt af mörgum slíkum ferlum sem hafa átt sér stað. Ef þeir gera það ekki fara eigur þeirra með tíð og tíma, ekki allar í einu, held ég, inn á sérstakan reikning í Seðlabanka Íslands sem ber vissulega lágmarksvexti en er öruggur reikningur. Þetta eru svo sem engir lágmarksvextir miðað við vaxtastigið í heiminum í dag. Þarna verða þá bara þessir peningar og fara algjörlega aftast í röðina við það að aflétta höftum. Auðvitað getum við á þessum tímapunkti ekki lofað því hvenær höftum verður aflétt. Þetta er bara eitt skref. Næst eru væntanlega lífeyrissjóðirnir og svo almenningur og þetta eru allt saman mjög stór vandamál sem enn blasa við. Þetta býðst þessum aflandskrónueigendum, þeim býðst að fara í útboðið eða ekki. Það er engin nauðung í þessu. Þeir geta valið þetta bara. Ef þeir vilja fara í útboðið eða vilja sem sagt komast með eigur sínar út er m.a.s. innbyggt í frumvarpið að þeir þurfa ekki að selja t.d. ríkisskuldabréf sín með hraði á einhverju hrakvirði. Þau eru keypt á fyrirliggjandi markaðsvirði. Fyrir þessu eru góðar og gildar röksemdir. Ríkisvaldið verður að standa við sitt, þetta eru ríkistryggð bréf. Það er ekki hægt að neyða fólk til að selja þau. Þarna er verið að gæta meðalhófs. Þeim er bara boðið að selja þessi bréf á markaðsvirði.

Ef menn eiga illseljanlegar eignir, ef þessir aflandskrónueigendur eiga t.d. óskráð bréf, er kveðið á um það í frumvarpinu að þeir þurfi ekki að selja þau bréf heldur geta eigendur þeirra átt þessar eigur áfram en komið með annað fjármagn til að kaupa sér aðgangsmiða að því að eiga þessar eigur áfram eftir ákveðnum leiðum sem eru hannaðar í frumvarpinu.

Mér finnst meðalhófs vera gætt. Eigendur þessara krónueigna standa alltaf frammi fyrir vali og það er engin ómálefnaleg nauðung í þessu, finnst mér.

Svo er náttúrlega spurningin: Hverjir eru þetta? Hverjir eiga þessar aflandskrónueignir? Auðvitað er það mjög áhugaverð spurning. Mikið af því mun væntanlega koma í ljós við útboðið vegna þess að menn þurfa að gera grein fyrir sér þegar þeir koma með þær eigur og ætla að taka þátt í útboðinu. Það verður vissulega fróðlegt. Því hefur verið fleygt að við séum að setja hérna löggjöf sem mismuni á grunni þjóðernis og þá er mikilvægt að halda því til haga að við erum bara að tala um erlenda lögaðila. Erlendir lögaðilar geta bæði verið Íslendingar að þjóðerni eða útlendingar. Við erum erum ekki að mismuna á grunni þjóðernis í þessu. Það finnst mér mikilvægasti punkturinn á þessum tímapunkti.

Svo er líka mikilvægt í þessu öllu saman að endurtaka ekki söguna. Hér er stabbi af peningum sem safnaðist fyrir í aðdraganda hrunsins, hann kom til með þeim hætti eins og ég impraði á áðan að hann er mjög líklegur til að vilja leita hratt út, þetta er svokallað kvikt fjármagn. Við þurfum auðvitað að koma í veg fyrir að í framtíðinni safnist aftur fyrir á Íslandi svona kvikt fjármagn. Þess gætir nú. Við sjáum að það er byrjað að bera mjög á vaxtamunarviðskiptum, byrjað að bera mjög á kviku innflæði á fjármagni. Það er önnur löggjöf en það er mjög rík ástæða til að leggja áherslu á það á þessum tímapunkti að þau tól og tæki verði hönnuð til að stemma stigu við þessu innflæði á kviku fjármagni svo við lendum ekki aftur í þessari stöðu.