145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér erum við að taka fyrir mjög stórt mál sem getur haft og á að hafa mikil áhrif til þess að aflétta gjaldeyrishöftum. Það sem truflar mig við þetta mál er að það er alveg sama hversu vel það er hannað, hversu vel úthugsuð mengin í kringum þetta allt saman eru, alltaf þegar einhver segist ætla að leggja fram mjög flókið mál, gríðarlega flókið mál eins og maður hefur heyrt á undanförnum dögum, óttast ég að í öllum þessum flækjum séu glufur. Ég óttast að lögin verði ekki nægilega vel skrifuð og sá ótti er ekki að ástæðulausu.

Ég hef heyrt marga þingmenn halda því ítrekað fram að það gangi ekki að láta framkvæmd Alþingis vera þannig að mál deyi á milli þinga af því að lög verði betri þeim mun oftar sem frumvörp eru lögð fram af því að frumvörpin séu yfirleitt svo illa skrifuð þegar þau eru lögð fyrst fram. Þetta eru rök þingmanna, helstu sérfræðinga í lagasetningu, um það af hverju við getum ekki látið mál lifa á milli þinga. Þegar við fengum í hendurnar frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum fengum við þingmenn sem eigum að afgreiða málið úr nefnd að sjá þetta, ekki bara þingmenn minni hlutans, ég held að alveg sé óhætt að segja að þingmenn meiri hlutans hafi ekki verið betur upplýstir um þessar mjög svo hátæknilegu útfærslur. Og við eigum að gefa því gæðastimpil, stimpil um hvort frumvarpið sé lagatæknilega í lagi. Við fengum að heyra af þessu síðdegis á fimmtudag. Á föstudag var frumvarpið lagt fram eftir að markaðir lokuðu og síðan fengum við gesti í gær sem verður að viðurkennast að höfðu ekki getað farið nógu ítarlega í málið til að koma með umsagnir enda má sjá að ekki eru margar umsagnir með þessu máli. Þær eru þrjár, það kemur ekki einu sinni umsögn frá Fjármálaeftirlitinu af því að þau höfðu hreinlega ekki tíma til að leggjast ítarlega yfir málið. Þau komu með nokkrar munnlegar ábendingar á örstuttum fundi því að við fengum alla aðilana í gær á fund og hver aðili hafði einvörðungu hálftíma. Það skipti ekki máli af því að það voru svo fáir sem höfðu haft tækifæri til að fara djúpt inn í þessa lagasetningu.

Ég verð að segja að til eru alls konar aðrar leiðir sem hægt er að fara til að tryggja að þingmenn taki upplýstar ákvarðanir. Við nefndarmenn hefðum alveg getað fengið þessi frumvarpsdrög afhent viku áður gegn trúnaði. Annað eins hefur gerst hér. Þá hefðum við kannski getað kallað eftir umsögnum um ákveðnar greinar án þess að það kæmi í ljós um hvað málið snerist eða beðið þá sem kæmu með umsagnir um trúnað við nefndina.

Við, þessi sérstaki samráðshópur, erum sem sagt kölluð upp í forsætisráðuneyti og fáum þar ágæta og skemmtilega yfirferð frá aðilum úr Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Það er hins vegar ekki nóg til að ég geti upplifað mig með fullvissu tilbúna að styðja þetta frumvarp. Ég styð að sjálfsögðu að við afnemum gjaldeyrishöft en ég get ekki af sannfæringu stutt málið af því að nú þegar eru vafaatriði í því sem lúta að þáttum sem við píratar leggjum mikla áherslu á, sem snúa t.d. að friðhelgi einkalífs. Ég hefði mjög gjarnan viljað fá umsögn frá Persónuvernd um það ákvæði því að þegar einu sinni eru komnar einhvers staðar í lagabálkinn miklar inngripsheimildir verður það kannski notað síðar sem fordæmi til að fá frekari inngripsheimildir í lögum er lúta að öðrum sviðum samfélagsins.

Indefence komu með örstutta umsögn en þeir báru að sjálfsögðu fyrir sig mjög stuttan tíma til að rýna ítarlega í málið. Mig langar að lesa hina örstuttu umsögn frá þeim, með leyfi forseta:

„Fyrr á þessu ári hleyptu stjórnvöld kröfuhöfum gömlu bankanna út fyrir höftin og nú er verið að tryggja aflandskrónuhöfum greiða leið út úr þeim. Það er gert með aðferðafræði sem lýst er í 42 blaðsíðna skjali með frumvarpi sem Indefence-hópurinn og aðrir umsagnaraðilar fá aðeins nokkrar klukkustundir til að meta. Enn bólar þó ekkert á áætlun fyrir almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði á Íslandi, sem bíða eftir því að heyra hvort greiðslujöfnuður þjóðarbúsins verði nægilega jákvæður til að losna líka úr fjármagnshöftum.

Fyrri umsagnir Indefence-hópsins um áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta hafa bent á að forgangur kröfuhafa og aflandskrónuhafa út úr höftum sé bæði óþarfur og skaðlegur. Þótt gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustunnar hafi gjörbreytt stöðu þjóðarbúsins á síðustu þremur árum er gjaldeyrisstaðan samt sem áður þröng og hætta á því að almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi verði eftir í höftum til langs tíma. Það er áhætta sem íslenska þjóðin ætti ekki að þurfa að taka. Stjórnvöld lofuðu að verja kaupmátt almennings gegn því tjóni sem útstreymi gjaldeyris til kröfuhafa slitabúanna og aflandskrónuhafa veldur.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Indefence-hópsins hafa stjórnvöld enn ekki svarað því hvenær þjóðin muni losna undan höftum. Upplýsingabeiðnir Indefence-hópsins til Seðlabanka Íslands liggja eftir ósvaraðar og fjármálaráðherra svarar ekki einu sinni margítrekaðri beiðni um fund til að ræða áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.

Það er óásættanlegt að kröfuhafar slitabúanna og aflandskrónuhafar komist út úr fjármagnshöftum með stórar upphæðir í erlendum gjaldeyri, sem skerða varanlega lífskjör almennings, fyrirtækja og lífeyrissjóða á Íslandi. Enn er ekki ljóst hvenær Íslendingar munu losna úr höftunum, þótt öllum öðrum hafi verið hleypt út.“

Og fyrir hönd Indefence-hópsins skrifa undir m.a. dr. Agnar Helgason, dr. Torfi Þórhallsson, Davíð Blöndal og dr. Sveinn Valfells.

Ég verð eiginlega að taka undir það sem þarna kemur fram og er áhyggjuefni þeirra. Ég brýni fyrir stjórnvöldum að ganga samstundis í það að svara því hvenær til standi að hleypa almenningi og lífeyrissjóðunum út úr þessum höftum.

Aðrir hafa tjáð sig um þessi mál þótt fólk hafi ekki haft mikinn tíma til þess og mig langar aðeins að vitna í það sem Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi okkur þingmönnum rétt í þessu, með leyfi forseta:

„Mat stjórnvalda er að staðan í dag leyfi ekki almennt afnám gjaldeyrishafta. Með öðrum orðum, stjórnvöld óttast að slíkt afnám mundi leiða til gengishruns. Fyrir nokkru taldi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn almennt afnám ekki vera í sjónmáli næstu árin. Fyrirhugað aflandskrónuútboð jafngildir því sértækri hliðarráðstöfun. Eftir sem áður verður ekkert sagt með vissu um afnám gjaldeyrishaftanna.“

Það er mikilvægt að hafa í huga að með þessari aðgerð erum við að sjálfsögðu ekki að afnema gjaldeyrishöftin heldur að taka hér fyrstu skref.

Það eru nokkur atriði sem ég vil fara örsnöggt yfir áður en ég lýk máli mínu, atriði sem koma fram í ágætu nefndaráliti minni hlutans sem ég sem áheyrnarfulltrúi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd tek hjartanlega undir. Ég ætla að grípa niður í álitið og fjalla um einn af mörgum þáttum sem útskýra af hverju ég get ekki stutt málið eins og það liggur fyrir:

„Staðreyndin er sú að frumvarpið mun ekki aflétta höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum og enn liggur ekki fyrir hvenær það verður gert. Hér er hins vegar boðuð sérstök aðgerð sem mun geta þjónað þeim tilgangi að auðvelda losun hafta í framtíðinni. Tekið er undir þau sjónarmið sem birtast í nefndaráliti meiri hlutans að eðlilegt sé að beita ákveðnum takmörkunum á réttindum í þágu almannahagsmuna enda standist slíkar takmarkanir stjórnarskrá. Að afloknu boðuðu útboði á aflandskrónum verður staðan eigi að síður sú að einu aðilarnir sem losnað hafa úr höftum verða kröfuhafar föllnu bankanna og þeir eigendur aflandskrónanna sem munu nýta sér útboðið.

Ein aðalástæða ríkisstjórnarinnar fyrir því að hafna kröfu um kosningar nú í vor var sú að aflétta þyrfti fjármagnshöftum á Íslandi og því þyrfti að ljúka fyrir kosningar. Hins vegar bendir ekkert til að því verði lokið fyrir kosningar í haust enda liggur ekki fyrir tímasett áætlun um losun hafta á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði og ljóst er að fleira þarf til svo það geti gengið eftir. Þar ber ekki síst að nefna aðgerðir gegn vaxtamunarviðskiptum þar sem í raun er að hlaðast upp nýr vandi sem nú er nærri hundrað milljörðum og getur haft veruleg áhrif á stöðugleikann. Til þess að taka á honum þarf aðgerðir, hugsanlega í formi bindiskyldu eða skattlagningar, en ljóst má vera að til þess þarf að breyta lögum og ekki verður hægt að aflétta höftum fyrr en tekið hefur verið á þessum vanda. Betur hefði farið á því að slíkar aðgerðir væru til umræðu samhliða þessu frumvarpi. Eins og staðan er bíður það væntanlega nýs meiri hluta á Alþingi að ljúka afléttingu hafta.“

Þetta er nákvæmlega málið, það hefði farið betur á að ræða þessi mál heildrænt og vinna heildræna útfærslu á raunverulegu afnámi gjaldeyrishafta.

Eitt sem fer mjög fyrir brjóstið á mér er sú staðreynd að það eru fjórir lögaðilar sem eiga 50% af þessum kröfum. Sex lögaðilar eiga 65% af þessum kröfum og það er ekki nokkur leið að fá að vita hverjir þessir aðilar eru, ég er búin að spyrja ítrekað um það bæði á lokuðum og opnum fundum. Maður fær bara einhver svör um að þetta séu hugsanlega, mögulega og sennilega lífeyrissjóðir í Bandaríkjunum eða góðgerðarfélög. Enginn veit hins vegar hvaða góðgerðarfélög, hvaða lífeyrissjóðir eða hvaða einstaklingar eiga í þessum kröfum.

Mér finnst það satt best að segja ákveðin birtingarmynd þess hversu gallað fjármálakerfi heimsins er og hversu ómögulegt er að taka þátt í því án þess að koma með kröfur um að eignarhald á svona gjörningum verði að liggja fyrir. Mér finnst alveg gjörsamlega ómögulegt að við séum að fara í þennan gjörning án þess að geta fengið neinar upplýsingar. Eina leiðin til að fá upplýsingar er að þessir aðilar fari leiðina.

Hér á landi er mikið vantraust gagnvart stjórnvöldum, sér í lagi formönnum ríkisstjórnarflokkanna, og því verður maður að spyrja: Er þetta rétta fólkið til að fara í þessa aðgerð? Skapar það trúverðugleika? Þá á ég við trúverðugleika gagnvart þjóðinni. Ég skynja mikið vantraust úti í samfélaginu. Ég skynja óöryggi og hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki einu sinni tekið þátt í umræðunum hér. Þó leggur hann þetta mál fram. Ekki hefur hann verið sýnilegur í þingsal síðan við byrjuðum að ræða málið. Mér finnst það til vansa. Hér er hann að biðja okkur um að treysta sér. Hvað gerir hann á móti til að skapa traust? Hvað er hann að gera til þess að róa okkur? Ekki neitt.

Ég er með áhyggjur. Ég vona að þetta fari vel, en það er ómögulegt að manni líði þannig að hugsanlega og mögulega gætu einhverjir sem tengjast hinum víðfræga kolkrabba landsins hagnast á þessu án þess að maður viti. Mér finnst óþægilegt og bara hættulegt að renna blint í sjóinn án þess að vita hvaða áhrif þetta muni hafa á landið á morgun. Við erum að taka áhættu, við skulum hafa það í huga. Við erum að taka áhættu en ég vona heitt og innilega að þeir aðilar — ég efast ekkert um hæfni þeirra — sem hafa skrifað þessi lög séu að gera það með okkur. Ég veit að fólk hefur vandað sig en ég veit líka að við erum fámenn á Íslandi. Við erum 330.000 manna þjóð. Það þýðir að við erum að kljást við sérfræðinga í að misnota glufur í lagagerð. Við skulum bara hafa í huga að það er nauðsynlegt þegar við setjum lög hér á landi sem eiga að vernda okkur fyrir ýmsum hrægömmum, innlendum og erlendum, að það sé almennilega gert.

Ég verð bara eins og aðrir að treysta á að svo sé. Ég hef ekki nokkra einustu leið til að meta eða álagsprófa það með sérfræðingum. Það finnst mér til vansa og ég er mjög ósátt við verkferlið og undirbúninginn að þessu fyrir Alþingi.