145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mikið vildi ég að svo væri en það er ekki alveg þannig. Þetta lýtur að einstaklingum sem eru eigendur aflandskrónueigna og þá er aðallega verið að huga að þýskum tannlæknum og svo framvegis. Þetta er ekki um þá sem eru í felum í þessum spagettífélögum, því miður. En auðvitað má kannski breyta því bara á milli umferða. Ég legg til að við gerum breytingartillögu þar á og er alveg sannfærð um að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og hv. formaður nefndarinnar séu tilbúin til þess.

En ég vil að því sé haldið til haga að ég ber fullt traust, að sjálfsögðu, til færni Seðlabanka Íslands og þeirra starfsmanna sem þar eru og fólks sem vinnur í fjármálaráðuneytinu. En það er bara þannig, það er að minnsta kosti mín reynsla hér í þinginu, að engin lög eru fullkomin. Því oftar sem maður fer yfir lagafrumvörp og því fleiri sem maður fær til þess að líta á frumvörpin, því betri verða þau. Það er nú yfirleitt viðkvæðið. En ég geri mér líka grein fyrir að þessi lagafrumvörp eru, eins og hefur ítrekað komið fram, ákaflega flókin og þess vegna er mjög mikilvægt að geta kallað til þá sérfræðinga sem maður treystir. Það er það sem ég gagnrýni fyrst og fremst við frumvarpið, það er hversu lítinn tíma bæði þeir sem maður mundi eðlilega kalla eftir umsóknum frá og þingmenn hafa haft til að fara ítarlega yfir lagasetninguna. Til hvers er þá verið að taka það inn í þingið ef við eigum ekkert að hafa um það að segja? Hvert er þá hlutverk löggjafans annað en að vera stimpilpúði?