145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:28]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp ríkisstjórnarinnar um meðferð aflandskróna. Frumvarpið er mjög mikilvægur áfangi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að stuðla að losun fjármagnshafta. Fyrir tæpu ári voru sett lög til að bregðast við þeim vanda sem stafaði af krónueignum fallinna fjármálafyrirtækja. Óhætt er að segja að þær aðgerðir hafi skilað árangri. Enn er þó óleystur sá vandi sem stafar af svokölluðum aflandskrónum, en frumvarpið sem við ræðum hér í kvöld miðar að lausn þess vanda.

Vegna efnisatriða frumvarpsins var nauðsynlegt að efni þess kæmi ekki fram fyrr en eftir lokun markaða á föstudag og að þinglegri meðferð lyki fyrir opnun markaða. Síðan á föstudag hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd haldið fjóra fundi um málið, fengið ítarlega kynningu á efnisatriðum þess, farið yfir umsagnir og tekið á móti gestum. Á meðal gesta voru fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja og einnig komu fyrir nefndina fulltrúar tveggja sjóða sem eiga hér aflandskrónur, auk þess sem nefndin átti þess kost að ræða við sérfræðinga um lagaleg atriði málsins. Vinnu nefndarinnar miðaði vel um helgina og ég vil færa nefndarmönnum þakkir fyrir eljusemi og árangursríka samvinnu í málinu. Einnig vil ég færa höfundum frumvarpsins þakkir fyrir vinnu þeirra, en frumvarpið og greinargerðin með því sem er vönduð bera þess vott að undirbúningur hefur verið góður og vandaður.

Hv. framsögumaður nefndarinnar hefur í ræðu sinni gert grein fyrir nefndarálitinu og helstu sjónarmiðum sem liggja því til grundvallar. Ég mun því aðeins koma inn á örfá lykilatriði. Í frumvarpinu eru aflandskrónur skilgreindar og sérstakar takmarkanir settar við því hvernig megi ráðstafa þeim. Í minnisblaði dr. Davíðs Þórs Björgvinssonar er komist að þeirri niðurstöðu að umræddar takmarkanir standist grundvallarreglur stjórnarskrár og fjölþjóðlegra samninga um vernd einkaréttar og bann við mismunun. Þær takmarkanir sem í frumvarpinu eru og lagðar eru á meðferð aflandskróna spretta af brýnni nauðsyn og skyldu til að vernda hag almennings. Aflandskrónur eru alls um 320 milljarðar og ljóst að ef þær fengju að leita inn í hagkerfið án takmarkana mundi það leiða til eignabólu og verðbólgu, auk þess sem aflandskrónurnar gætu leitað út í gegnum gjaldeyrisforðann sem mundi leiða til gengisfalls krónunnar. Þótt aflandskrónuvandinn sé vissulega orðinn minni í dag en hann var rétt eftir hrun er hann enn mjög verulegur.

Seðlabankinn hefur boðað að á næstunni verði aflandskrónueigendum gefinn kostur á að flytja eignir sínar úr landi með uppboði og skilmálar þess uppboðs verða kynntir á næstu dögum. Hvort sem þátttaka í því útboði verður mikil eða lítil er ljóst að það frumvarp sem við fjöllum um hér í kvöld er afar mikilvægt skref. Verði frumvarpið að lögum verða aflandskrónur þar með tryggilega aðgreindar, bæði lagalega og tæknilega, frá öðrum fjármunum í landinu. Með þeirri aðgreiningu er búið í haginn fyrir að hægt verði að taka næstu skref í að aflétta takmörkunum á aðra, heimilin og fyrirtækin í landinu. Almannahagsmunir krefjast þess að nú verði tekin skref til að bregðast við uppsafnaðri þörf lífeyrissjóða, atvinnulífs og heimila til að fjárfesta erlendis. Þörfin er brýn og magnið gæti numið hátt í þúsund milljörðum. Það getur því tekið nokkur ár að koma eignavægi langtímafjárfestinga innlendra aðila í jafnvægi áður en hægt verður að taka frekari skref til að aflétta takmörkunum af aflandskrónum.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu frekar í bili. Ég fagna því hér að lokum að frumvarpið er komið fram, lýsi almennri ánægju með þá vönduðu útfærslu sem í því felst og ítreka þakkir mínar til nefndarmanna fyrir góða samvinnu og allra þeirra sem komu að vinnu nefndarinnar.