145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið, nú nokkrum sinnum, er þetta frumvarp skref í átt að losun fjármagnshafta og er því markmiðið vitaskuld gott, markmið sem ég hygg að við ættum öll að vera sammála um að sé jákvætt, þótt ég verði reyndar að segja að af og til hefur komið mér á óvart hversu ósammála hv. þingmenn geta verið um slík mál. Þó er verkefnið þannig eðli sínu samkvæmt að margt þarf að gerast án þess að aðilar úti í bæ og víðar viti hvert planið sé, ef svo mætti að orði komast. Þess vegna þarf stundum að taka mál á dagskrá með skömmum fyrirvara án þess að neinn vilji það raunverulega og svo þarf að afgreiða það yfir helgi meðan markaðir eru lokaðir til að aðilar á markaðnum geti ekki brugðist við og þannig einhvern veginn sniðgengið áhrifin sem frumvarpi eða tilteknu máli er ætlað að ná fram.

Í fljótu bragði, eftir þann stutta tíma sem við höfum haft til að skoða þetta, verð ég að segja eins og er að mér líst efnislega ágætlega á frumvarpið í öllum meginatriðum. Ég er með einstakar athugasemdir sem eru allar þess eðlis að mér finnst málið einfaldlega þurfa meiri tíma. Ég efast um að einhver sé í sjálfu sér ósammála um það nema kannski þeir sem hafa sérþekkingu á efninu. Við erum stundum bara fórnarlömb aðstæðna og ég ber fulla virðingu fyrir því og hef mætamikinn skilning á því en það hjálpar mér hins vegar ekkert við að skoða málið jafn vel og ég gæti með meiri tíma. Sá tími færi ekkert endilega bara í að ég væri að lesa frumvarpið aftur og aftur eða velta því meira fyrir mér. Það er í sjálfu sér nægur tími til þess. Hins vegar þarf oft að spyrja utanaðkomandi aðila um efnisatriði mála, sérstaklega þeirra sem eru tæknilega flókin og þegar þau varða efni sem kannski ekki allir þeir sérfræðingar sem nú þegar hafa verið kallaðir að borðinu hafa haft tækifæri til að skoða nánar.

Þá vil ég helst nefna 14. gr. sem fjallar um eftirlitsskyldu Seðlabankans en ég kem að því hér örlítið síðar í ræðu minni.

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur viljað vita um hvaða aðila er að ræða. Mér finnst mikilvægt að við höldum til haga hvers vegna þær spurningar vakna. Þær vakna ekki bara í þessum þingsal, virðulegi forseti, þær vakna líka úti í samfélaginu. Þær vakna vegna þess að við erum að afgreiða þetta frumvarp undir ákveðnum kringumstæðum, í ákveðnu andrúmslofti, í kjölfar ákveðinna atburða sem gera það að verkum að traust á stjórnmálamönnum er lítið. Stundum virðast undarleg takmörk, svo ekki sé meira sagt, fyrir því hvað stjórnmálamönnum þykja eðlileg tengsl og hvað þeim þykja eðlilegar aðstæður og eðlilegar kringumstæður og eðlileg atvik. Enn sem komið er átta ég mig ekki á því nákvæmlega hvernig stjórnmálamenn hyggjast öðlast traust aftur ef ekki með því að sýna aðeins meiri auðmýkt gagnvart almenningi en gert hefur verið í gegnum tíðina hér, ekki síst upp á síðkastið. Það er vegna vantrausts og vegna þess að það er skortur á trausti. Það er bara þannig. Hvort sem við erum sammála því vantrausti eða ekki, hvort sem við erum sátt við það vantraust eða ekki, er það til staðar og við eigum að taka það alvarlega vegna þess að það er til staðar, ekkert endilega vegna þess að við erum sjálf samþykk því. Það býr til vandamál þegar kemur að svona málum, þegar þau eru afgreidd mjög hratt, þegar þau eru lögð fram af sama fólki og hefur nýlega verið til umræðu vegna umfjöllunar um svokölluð skattaskjól og því um líkt. Það hjálpar þessu máli í það minnsta ekki.

Ég þarf ekkert að fara út í neina áfellisdóma eða ásakanir í þessari pontu. Það er óþarfi. Það eina sem skiptir máli er að við gerum okkur grein fyrir að þessi umræða er til staðar. Hún er til staðar úti í samfélaginu, hún er ekki háð góðfúslegu samþykki hins háa Alþingis fyrir því hvort sú umræða sé lögmæt eða ekki. Hún er til staðar. Það er vandamál okkar, hvort sem við erum sátt við vandamálið eða ekki og hvort sem við erum efnislega sammála athugasemdum og því vantrausti sem ríkir eða ekki.

Minn skilningur á þeim upplýsingum sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur kallað eftir úr nefnd um hvaða aðilar þetta séu er sá, eftir samtöl við aðra hv. þingmenn, að þessar upplýsingar séu ekki enn til og geti ekki orðið til fyrr en við útboð Seðlabanka Íslands. Þá gæti Seðlabanki Íslands sagt þingmönnum þetta, væntanlega í trúnaði eða hvernig sem því yrði fyrir komið, en það er ekki mögulegt fyrr en þá. Það er vandamál sem ég skil mætavel en það hjálpar samt ekki. Ég skil asann en hann hjálpar ekki. Ég skil að menn viti ekki hvaða aðilar þetta eru en það hjálpar ekki. Mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu.

14. gr. frumvarpsins er eftirlitsklausa Seðlabanka Íslands. Kaflinn er sá VI. í frumvarpinu og heitir Eftirlit Seðlabankans og viðurlög. Ég dreg ekki úr því að vitaskuld þarf Seðlabanki Íslands að sinna þessu eftirliti og að sjálfsögðu þarf hann heimildir til að afla upplýsinga o.s.frv. Hins vegar hygg ég að þessi grein, eins og hún er orðuð og útfærð núna, sé þannig að hún mundi taka breytingum ef hún fengi meiri tíma, ef þetta mál yrði afgreitt á t.d. viku og á virkum dögum þegar hægt væri að fara í fullt umsagnarferli eins og við gerum venjulega, helst tvær auðvitað, og fá þá jafnvel til okkar gesti frá Persónuvernd til að fara yfir það hvernig best sé búið um þessa tilteknu grein. Hún er mjög víð. Ég vona að enginn dónaskapur sé fólginn í að segja að mig grunar að Seðlabankinn hafi sjálfur komið með þessa tillögu. Hún er það víð að ég gæti búist við því að einungis eftirlitsaðilinn sjálfur hefði getað skrifað hana svona opna.

Aftur á móti ætla ég ekki að lýsa yfir einhverjum fordæmalausum bölmóði yfir því að svo stöddu vegna þess að í fyrsta lagi er hún afmörkuð að ákveðnu leyti, þ.e. að því leyti að heimildin gildir einungis til þess að framfylgja þessum tilteknu lögum og ná fram þeim markmiðum sem þessi tilteknu lög, lögin sem frumvarpið verður að, stefna að. Það er mikilvægt að hafa í huga. Þá þætti mér líka vænt um að koma þeim skilaboðum til Seðlabanka Íslands að það er mikilvægt að hann sjálfur átti sig á því, sem ég treysti honum reyndar til að gera ef hann tekur meðvitaða ákvörðun um það, að hann haldi sig innan upplýsingasöfnunar- og eftirlitsheimilda sem eru raunverulega og sannanlega nauðsynlegar til að framfylgja þessum lögum og ná þeim lögmætu markmiðum sem lögunum er ætlað að ná. Það er gríðarlega mikilvægt, hreinlega til að ekki komi upp einhvers konar ágreiningur um það hversu langt megi ganga.

En vel á minnst, þetta mál er auðvitað þess eðlis að það varðar klárlega mjög ríka almannahagsmuni. Það er öðruvísi en var hér með hagstofumálið á sínum tíma. Það er ágætt að rifja upp við þetta tækifæri, virðulegi forseti, að á sumarþinginu 2013 kom fram hábölvað mál sem í daglegu máli var kallað hagstofumálið og við píratar og fleiri í stjórnarandstöðunni vorum eindregið á móti. Ástæðan var sú að þar var heimiluð ansi rík upplýsingasöfnun og vissulega var allt dulkóðað og með þagnarskyldu o.s.frv. en þó var rík upplýsingasöfnun til staðar sem við lögðumst gegn á forsendum 71. gr. stjórnarskrárinnar og auðvitað því grundvallarprinsippi í mannlegu samfélagi sem friðhelgi einkalífsins er.

Í þeirri umræðu varaði sá sem hér stendur við því að um leið og Hagstofa Íslands fengi þessar heimildir mundi næsti koma og vilja sams konar heimildir og menn mundu vilja nota slíkar upplýsingar í einhverjum öðrum tilgangi en þeim sem Hagstofunni var ætlað á þeim tíma. Ekki höfðum við afgreitt frumvarpið frá þinginu þegar sá spádómur reyndist að sjálfsögðu réttur. Seðlabanki Íslands kom einmitt á nefndarfund til okkar, ritaði umsögn og vildi fá slíkar upplýsingar líka. Vegna hvers? Jú, þær eru svo gagnlegar. Auðvitað heyrðist meiri bölmóður af minni hálfu úr þessari pontu vegna þess máls en það var þó efnisólíkt að því leyti að hagstofumálið fjallaði ekki að okkar mati um ríka almannahagsmuni. Það snerist um að athuga hversu vel einhverjar aðgerðir stjórnvalda hefðu dugað. Það hefði ekki valdið neinu hruni hér, ekki gengishruni eða neinu því um líku og engin hætta á slíku ef Hagstofa Íslands hefði ekki fengið þessar heimildir. Það er ólíkt inntak í því frumvarpi frá þessu því að hér er óneitanlega um að ræða ríka almannahagsmuni. Það verður ekki tekið burt frá þessu máli en það er líka þess vegna sem okkur ber að vanda okkur. Þegar við lendum í aðstæðum þar sem okkur ber að samþykkja frumvarp svo hratt sem við eigum að gera núna lendum við í þessum vanda. Og þótt við séum fórnarlömb aðstæðna og þótt asinn sé lögmætur breytir það því ekki að það kemur niður á vinnubrögðunum. Það er engin leið fram hjá því. Það að maður hafi afsökun fyrir að gera eitthvað þýðir ekki að vandamálin við asann fari út um gluggann. Þvert á móti þýðir það að maður er fastur með þau.

Og ég hygg að orðalag 14. gr. sé einnig fórnarlamb aðstæðna. Vandinn er sá að efni hennar varðar að einhverju leyti 71. gr. stjórnarskrárinnar og ef ekki, þá í það minnsta lög nr. 77/2000, persónuverndarlög. Hvort tveggja ber okkur að virða og við reynum að öllu jöfnu að passa að löggjöf sé í samræmi við þessi lög. Ég vil halda því til haga að ég held ekki að þessi grein brjóti í bága við stjórnarskrá. Ég held bara að það hefði mátt vanda hana betur, skýra hana betur, njörva niður hvaða upplýsingum menn mundu safna, hjá hvaða aðilum o.s.frv. Oft er það að gera vel í persónuverndarmálum einfaldlega spurning um að hafa hlutina skýra þannig að menn viti að hverju þeir ganga. Þessi grein er heldur opin og þess vegna verðum við að leggja ákveðið traust í hendur Seðlabankans en þá er líka mikilvægt að við minnum hann á að ef við samþykkjum þetta óbreytt þarf Seðlabankann að passa sig á því sem við mundum undir venjulegum kringumstæðum passa með því að fá á fundi okkar gesti eins og Persónuvernd og jafnvel aðra sem þekkja hvað best til um hvernig sé heppilegt að hafa löggjöf þannig að það sé algjörlega skýrt hversu langt eftirlits- og upplýsingabeiðniheimildirnar gangi.

Enn og aftur get ég bara ítrekað að hér er stefnt að ákveðnu markmiði samkvæmt frumvarpinu og greinin sett fram til að ná því markmiði. Það kemur fram í greininni sjálfri og það er mikilvægt að halda því til haga.

Fyrst ég hef ég aðeins meiri tíma ætla ég að nefna eitt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór aðeins inn á í andsvörum við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, en það varðaði þingsályktunartillögu Vinstri grænna um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Þá hafði 14. gr. einnig komið til tals og upplýsingasöfnunarheimildirnar sem í henni felast. Ég árétta að sú grein gæti ekki, í það minnsta ekki að mínu mati, varðað þá þingsályktunartillögu neitt, í fyrsta lagi vegna þess að 14. gr. er afmörkuð út frá verksviði frumvarpsins sjálfs, ekki því markmiði sem þingsályktunartillögu Vinstri grænna var ætlað að ná. Sömuleiðis stæði Seðlabankinn ekki að slíkri rannsókn, a.m.k. ekki samkvæmt tillögunni eins og ég les hana. Ég finn ekkert um Seðlabankann í tillögunni en hins vegar kemur fram í henni, með leyfi forseta:

„Rannsóknarhópurinn starfi með embættum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á þeim forsendum sem skattrannsóknarstjóri ákveður. Fjármála- og efnahagsráðherra sjái til þess að veitt verði fé úr ríkissjóði til þess að kosta viðbótarstarfslið sérfræðinga og annars starfsfólks sem þarf að mati ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra til starfa fyrir rannsóknarhópinn og hlutaðeigandi skattyfirvöld.“

Ég finn ekkert þarna sem varðar Seðlabankann eða þau markmið sem þessu frumvarpi er ætlað að ná. Þetta eru algjörlega aðskilin atriði. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga í ljósi umræðunnar sem átti sér stað sem var, meðan ég man, mjög góð. Þetta er ekki heimild til að fara út í einhverjar skattrannsóknir. Það er alveg skýrt. Þetta er ekki heimild til að fara út í einhverja víðtæka upplýsingasöfnun. Það er annað markmið sem við eigum að ræða á öðrum forsendum. Upplýsingasöfnunin sem er heimil í 14. gr. er mjög víðtæk og hún sleppur einungis vegna þess að hún er afmörkuð við markmið þessa frumvarps, ekki allra annarra markmiða, sama hversu lögmæt þau markmið annars gætu verið. Það er nokkuð sem við þyrftum að útfæra sérstaklega og ættum auðvitað að gera. Þá væri kannski aðeins annar tónn gagnvart efni 14. gr.

Aðallega hef ég áhyggjur af því hvernig farið verði með hana. Ég hef ekki áhyggjur af því að hún standist ekki stjórnarskrá. Ég tel hana standast stjórnarskrá, það er bara mikilvægt að handhafi þessa valds átti sig á því að meðferð hans skiptir verulega miklu meira máli fyrst við erum ekki búin að njörva þetta algjörlega niður. Auðvitað væri langbest að við gerðum það. Sömuleiðis væri fróðlegt að sjá hvað kæmi fram í umsögn Persónuverndar ef sú ágæta stofnun skilaði umsögn þrátt fyrir að þetta hafi ekki farið í jafn langt umsagnarferli og þingmál alla jafna gera.

Hvað varðar mína eigin afstöðu til málsins tel ég frumvarpið í meginatriðum gott eins og ég sagði áður. Ég hygg að það sé lögmætur hluti af því mikilvæga og lögmæta markmiði að losa um fjármagnshöft. Aðstæðurnar sem við búum við hjálpa mér ekki við að ýta á græna takkann í þessu máli. Þvert á móti gera þær mér það miklu erfiðara. Að óbreyttu mun ég sitja hjá í þessu máli. Ég ætla að leyfa umræðunni að klárast og leyfa öðrum að reyna að sannfæra mig um annað ef þeir svo kjósa. Tímaskorturinn hefur áhrif og hann hefur neikvæð áhrif á vissu mína til þess að hvort sem er samþykkja þetta mál eða vera á móti því.

Þetta gæti verið öðruvísi undir öðrum kringumstæðum. Ef málið hefði fengið fulla meðferð hugsa ég, nema ef eitthvað nýtt kæmi fram, að ég yrði samþykkur því, í það minnsta ef orðalagsbreyting yrði gerð á 14. gr. Ég er viss um að það mundi gerast með hefðbundinni þinglegri meðferð. Ég er sannfærður um það. Henni yrði breytt, hreinlega vegna þess að þingmenn vilja almennt ekki hafa þetta óskýrt. En hér er tímapressan og hún veldur þeim vandamálum sem ég hef rakið í þó nokkuð löngu máli.

Nú ætla ég að láta staðar numið, virðulegi forseti, og vona að þetta mál komi til atkvæðagreiðslu sem allra fyrst því að tímaskortur er til staðar, eins bölvanlegt og það er. Og þótt ég sé ósáttur við það ber ég virðingu fyrir því.