145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er mér miklu fremri um allt það sem lýtur að persónuvernd og lögum um persónuvernd. Ég stend alltaf með stjórnarskránni í öllum málum og það er mér ákveðin yfirlýsing, jákvæð, þegar það gengur fram af munni hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að hann telur að 14. gr. stangist ekki á við stjórnarskrá. Það er mjög gott. Það var minn eini efi um þá grein vegna þess að ég tel að sú grein sé lykilgrein.

Svo vil ég geta þess að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur misskilið töluvert það sem ég sagði áðan þegar ég dró samsvörun á milli þeirrar greinar og tilgangs tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Sú tillaga gengur í höfuðatriðum út á að kortleggja hverjir það eru sem eiga fé í aflandseyjum, meðal annars í því augnamiði að geta kannað hvort um einhvers konar skattsniðgöngu eða skattalagabrot hafi verið að ræða. Sú tillaga sem ég styð mjög fast naut ekki mikillar hylli meðal stjórnarmeirihlutans og menn fundu henni ýmislegt til foráttu.

Það sem ég sagði áðan var að ein höfuðröksemdin sem menn höfðu fyrir því að ekki væri hægt að fara í slíka rannsókn var að þar lágu ekki fyrir upplýsingar um hverjir þetta væru. Ég sagði að þegar þetta frumvarp hefur verið samþykkt, þegar búið er að ljúka útboðinu, þá liggja þær upplýsingar fyrir.

Er þá hugsanlegt að sú staða komi upp að á einum stað í stjórnkerfinu liggi fyrir vitneskja um þá sem eiga fé í gegnum aflandseyjar og að annars staðar í stjórnkerfinu hungri menn og þyrsti eftir því að fá þær upplýsingar, (Forseti hringir.) þ.e. meðal þeirra sem eru að rannsaka skattundanskot og þeir fái ekki þessar upplýsingar?

Það held ég að verði nú óskaplega erfitt þó að ég geti (Forseti hringir.) verið sammála hv. þingmanni um að þetta varðar ekki, því miður, skattrannsóknir.