145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað það til enda hvað það mundi þýða að blanda þessum málum mikið saman. Við erum að ræða tvö ólík markmið og tvær ólíkar stofnanir, reyndar tvær og hugsanlega fleiri þar í sambandi við skattamálin annars vegar og hins vegar hvað varðar hlutverk Seðlabankans við gjaldeyrisútboð og því um líkt. Ef ég hef eitthvað misskilið hv. þingmann get ég beðist velvirðingar á því og sér í lagi ef ég hef einhvern veginn sagt rangt frá því sem hv. þingmaður sagði eða meinti. Það er auðvitað best að menn hlusti bara á þann sem segir til að vita hvað sá hinn sami meinar.

Ég er alla vega aðeins skýrari um það núna í ljósi andsvars hv. þingmanns og tel að það geti vel verið rétt að eftir þessi útboð og eftir að þessi hluti losunar fjármagnshafta hafi átt sér stað sé til staðar meira af upplýsingum sem gætu rétt eins aðstoðað við útfærslu þingsályktunartillögu vinstri grænna og hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur. Svo má vel vera, ég þekki það hreinlega ekki, en ég mundi í fljótu bragði búast við því að alla vega væru þar einhverjar nýtanlegar upplýsingar.

Það þarf auðvitað að huga vel að afmörkun hvers embættis fyrir sig. Mjög mikilvægt er að allar stofnanir séu með á hreinu hvaða verksviði þær þjóna og sér í lagi þegar farið er með mikið magn af viðkvæmum upplýsingum sem báðar þessar stofnanir gera, Seðlabankinn og ríkisskattstjóri. Það þarf því að vanda vel til verka þar. Eins og ég segi, ég hef ekki hugsað það alveg til enda hvað það þýðir að blanda saman þessum verkefnum en hygg þó að það sé rétt.

Þó skulum við hafa eitt á hreinu. Það eru ekki endilega sömu aðilarnir sem eru í skattaskjólum og taka þátt í útboðum, það eru ekki endilega sömu aðilarnir. Það geta verið sömu aðilarnir, en ég mundi ekki halda í fljótu bragði að það væru endilega fleiri samasemmerki þar en annars staðar í samfélaginu. Það eru jú fleiri efnamiklir aðilar í samfélaginu til staðar en (Forseti hringir.) þeir sem fara í útboð. Þess vegna er kannski ekki (Forseti hringir.) fljótlegt að svara þeirri spurningu.