145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat spurningin sem við þekkjum ekki en marga þyrstir í að fá svar við. Er það þannig að í skjóli nafnleyndar í gegnum félög á aflandseyjum skattaparadísanna hafi Íslendingar stundað viðskipti, t.d. með kröfur á íslenska ríkið á eftirmarkaði bak hruninu? Á því leikur grunur. Það er það sem menn vilja gjarnan sjá og vita af. Við höfum engar leiðir til að gera það í dag.

En hér liggur fyrir frumvarp. Í því er tiltekin grein, 14. gr., sem er lítt túlkuð í greinargerð með frumvarpinu, ekkert í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra, ekkert í framsögu hv. þm. Brynjars Níelssonar með nefndarálitinu, en hún er túlkuð í einni setningu í greinargerðinni. Þar segir bókstaflega að í útboðinu muni Seðlabankinn hafa heimildir til þess að kalla eftir upplýsingum um eignarhald á þeim aflandseignum sem verið er að leysa út.

Þá tel ég að samkvæmt því þegar útboðinu sleppir munu liggja fyrir alla vegana upplýsingar um alla þá sem hafa átt eignir og viljað koma þeim í gegnum útboðið og leysa þær út úr íslensku samfélagi. Við þær aðstæður tel ég að þar sé kominn að minnsta kosti ansi þéttur gagnagrunnur sem væri hægt að skoða með það fyrir augum hvort um væri að ræða einhvers konar skattalagabrot hjá þessum ágætu meintu eigendum. Ég veit ekkert um það í dag en þessi staða getur komið upp.

Heldur hv. þingmaður að það verði (Forseti hringir.) auðvelt fyrir stjórnvald að standa gegn kröfum utan úr samfélaginu (Forseti hringir.) eða á Alþingi um að sá gagnagrunnur verði notaður af hálfu skattrannsóknarstjóra embættisins?