145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi gengið. Ég sagði ekki og vona að ég hafi nú ekki verið misskilinn varðandi það. Ég tel ekki miklar líkur á því að gengið falli. En það stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„[Lagt er] til að lögfest verði ákvæði um meðferð krónueigna sem háðar hafa verið takmörkunum frá setningu fjármagnshafta. Um er að ræða eignir í eigu eða vörslu erlendra aðila sem eru líklegar til að leita útgöngu við losun fjármagnshafta með neikvæðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar.“

Það var þetta sem ég átti við. Við erum að fara í þessar aðgerðir núna einmitt vegna þess að við óttumst neikvæðar afleiðingar á gengi íslensku krónunnar sem mundu hafa gríðarlega slæm áhrif á hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu.

Aðeins varðandi 14. gr. Ég held að hún sé góð og ég held að hún sé vel orðuð og geri það að verkum að Seðlabankinn geti kallað eftir upplýsingum. Meira að segja, eins og þingmaðurinn nefndi, að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu við að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

Ég skil greinina þannig að þarna sé verið að veita Seðlabankanum heimild, þ.e. að hann geti kallað eftir og svo framvegis. En ég hefði viljað kveða aðeins fastar að orði. Það er bara mín persónulega skoðun. En ég geri ekki athugasemdir.

Ég vil líka benda á það að þeir sem vilja raunverulega leyna einhverju munu væntanlega ekki fara í útboðið. Þeir munu væntanlega, því miður, nýta sér að fara út á genginu 220. Þá munum við aldrei komast að því hverjir það voru. Ég tel það vera miður.