145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég sömuleiðis þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að veita mér þau forréttindi að fá að skyggnast inn í afstöðu hans til ýmissa þátt í frumvarpinu. Þá verð ég að segja, herra forseti, að þeir eru orðnir þrír sérfræðingarnir, þar af tveir lögfræðingar, sem telja að heimildirnar sem er að finna í 14. gr. standist gagnvart stjórnarskránni. Ég er alveg meðvitaður um það og það sem er að finna í 15. gr. sem á eftir kemur og þeirri 16., þar sem segir hins vegar að ef dómari úrskurðar að veita eigi lögreglu þessi gögn ef þarf við rannsókn máls þá beri svo að gera. Það hlýtur að fela í sér að ef kemur til rannsóknar á meintum skattalagabrotum og grunur leikur á að þar séu Íslendingar sem ekki hafa gefið upp eignarhald eða upplýsingar með réttum hætti, þá skulum við sjá hvernig framtíðin leikur þær upplýsingar sem þarna er að finna.

Ég hefði talið, eins og ég sagði áður, að með þessu ákvæði væri ansi langt seilst. Hugsanlega skautað utan í stjórnarskrána. En ef hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. þm. Brynjar Níelsson og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson telja allir þrír, og eru mér allir miklu fremri í lögfræði og persónuvernd, að þetta sé í lagi, þá tek ég það bara gott og gilt. Vissulega tek ég líka ljúfmannlega þeirri aðfinnslu sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson beindi greinilega til mín um að ekki væri nóg að hlýða á vísra manna orð, menn þyrftu sjálfir að fara og skyggnast um gáttir. Það er algjörlega hárrétt hjá hv. þingmanni. Þá ber honum að virða mér til vorkunnar að ég nýt ekki þeirra forréttinda að fá að sitja við fótskör meistaranna í efnahags- og viðskiptanefnd og hlusta á þá. Ég er hér eins og hver annar ræfill og fótgönguliði að afla mér upplýsinga með því að sitja slímusetur í þingsölum og hlusta á þá í þau fáu skipti sem þeir stíga náðarsamlegast niður af sínum stalli og veita okkur þau forréttindi að fá að hlýða á vísdómsorð hrjóta af vörum þeirra um þessi mál. Ég reyndi líka að lesa nefndarálitið en gat það auðvitað ekki fyrr en umræðan var hafin og ég var búinn að hlusta á hina ágætu framsögu hv. þm. Brynjars Níelssonar þegar ég loksins komst til að lesa það vegna þess að það var ekki tilbúið. Ég ætla samt sem áður ekki að kvarta undan því við hæstv. forseta eða framkvæmdarvaldið að það hafi verið ónógur tími til samráðs. Hér er hins vegar um að ræða þrep sem var löngu ákveðið. Menn vissu svona í stórum dráttum umbúnað þessara mála. Hér er fyrst og fremst um að ræða tæknilega útfærslu á því, að vísu með einu fráviki sem mér þætti ákaflega vænt um ef hv. þm. Brynjar Níelsson eða eftir atvikum formaður nefndarinnar, sem er líka sérfræðingur í efnahagsmálum, mundu skýra út fyrir mér af hverju var vikið frá.

Planið sem við erum að fylgja og kom fyrst fram í skýrslum og greinargerðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðla vetrar 2011 gerði ráð fyrir því að í fyrsta lagi yrði með útboðum reynt að smala út þeim krónueignum sem var að finna í jöklabréfum. Búið er að fara í 21 útboð og ég held að búið sé að nudda þeim stabba niður um helming. Afgangnum átti síðan í öðru lagi að koma í lóg með því að hleypa þeim út gegnum fyrirhugað útboð í júní en ella gefa eigendum þeirra kost á að setja þau yfir á langa pappíra í gjaldeyri og eftir 10, 12 ár yrðu þeir greiddir upp, þá mundu þeir þroskast og koma á gjalddaga. Ég tel að það hafi verið góð leið vegna þess að hún setur minna ok og minni þrýsting á gjaldeyrisstöðu Seðlabankans heldur en leiðin sem við erum að velja núna, en hún felst í því að þeim er einfaldlega borgaður út gjaldeyririnn. Það var af þeirri ástæðu, held ég, sem hv. þm. Brynjar Níelsson kvaðst hafa orðið var við þrýsting á Facebook og annars staðar þar sem menn voru að tala um yfirvofandi fall krónunnar. Það er tóm vitleysa. Krónan mun ekki falla við þetta. Eins og ég hef sagt eru hlöður Seðlabankans fylltar upp í rjáfur af gjaldeyri, þannig að ég óttast það ekki. Hins vegar þætti mér vænt um ef kæmi fram skýring á því af hverju vikið var frá þeirri upphaflegu áætlun. Það er hugsanlega vegna þess að Seðlabankinn hefur einfaldlega svo sterka gjaldeyrisstöðu. Það getur vel verið. Hitt hefði alveg óumdeilanlega sett minni þrýsting á gjaldeyrisstöðuna og hefði í reynd leitt til þess að við mundum hafa þurft að standa skil á þessum peningum, þ.e. hleypa þeim út, mæta því með gjaldeyrisgreiðslum þegar að því kæmi lengra inni í framtíðinni. Hugsanlega er það mat hv. þm. Brynjars Níelssonar eða annarra sem um véla að staða þjóðarbúsins sé einfaldlega svo góð í dag. Að öðru leyti er þetta bara skref í löngu fyrir fram gerðri áætlun. Þess vegna tel ég að það sé fullkomlega rökrétt af Samfylkingunni að styðja þetta mál. Ég geri það. Mér hafa fundist þær umræður sem hafa verið í kvöld og dag ákaflega gagnlegar. Ef eitthvað er þá er það álit mitt að frumvarpið sé ívið sterkara til að mæta kröfunum sem við gerum til þessara síðustu undirbúningsaðgerða áður en við ráðumst í útboðið en mætti telja.

Ég tel líka mikilvægt að fram komi að útboðið mun í sjálfu sér ekki geta leitt til neinna óheillavænlegra afleiðinga fyrir lífsgæði íslensks almennings eins og virðist koma fram í að minnsta kosti einni umsögn. Eins og ég skil málið er það einfaldlega þannig að það skiptir ekki máli hversu stór hluti þessa aflandsstabba fer út í gegnum útboðið. Sá sem kýs að dvelja áfram hér innan lands er einfaldlega, til að orða það með myndrænum hætti, læstur niður í lokaðri dýflissu og kemst ekki þaðan út fyrr en Íslendingum sýnist svo og það er engin dagsetning eða ártal á því. Það er kannski ekki mjög eftirsóknarvert. Á meðan fá þeir enga vexti nema 0,5%.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gerði því skóna að þó kynnu að vera einhverjir sem mundu vilja vera áfram í þeirri stöðu, m.a. þegar um væri að ræða einhverja samlanda okkar sem ekki vilja láta það koma fram í gegnum heimildirnar sem Seðlabankinn fær til að krefja upplýsinga um eignarhald, og er að finna í 14. gr., og vildu þess vegna frekar vera með peninga sína til margra ára til viðbótar en að koma fram í dagsljósið. Þá er það samt sem áður skoðun mín að eins og staðan er í heiminum í dag og ávöxtunarmöguleikar á fjármagni eru í heiminum í dag fyrir svona sjóði og þá sem hafa peninga eins og þessa með höndum, þá sé það fullt eins líklegt að mun stærri stabbi en menn gera almennt ráð fyrir, að minnsta kosti í þessari umræðu, kjósi að vera hér áfram á 0,5% vöxtum og bíða síns tíma, bíða eftir því að búið verði að afnema gjaldeyrishöft. Þá er vel hugsanlegt að ávinningur þeirra, vegna þess að gengið er þeim miklu hagstæðara, kunni að leiða til þess að það hafi þegar upp er staðið bara verið betra fyrir þá að vera hér en að ávaxta peningana einhvers staðar annars staðar.

Mér hefur í ræðum mínum í dag sollið nokkur móður yfir þeirri brýnu nauðsyn sem ég tel vera á því að upplýsa hverjir það eru og hversu hátt hlutfall Íslendinga er meðal þeirra sem eiga þessar aflandseignir sem eru svona kvikar og vaxa hugsanlega á faraldsfætur þegar útboðið fer fram. Ástæðan er sú að ég er algjörlega ósammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að vitneskja um það skipti ekki máli ef til málarekstrar kemur. Hv. þm. Brynjar Níelsson er áhyggjulaus maður, sefur vel á nóttunni yfir þessu bixi öllu saman. Ég hef illu heilli fortíð í málinu. Ég hef verið í ríkisstjórn og reyndar tveimur sem hafa stýrt þjóðarskútunni í gegnum þetta og ég veit að allt getur gerst. Menn verða að hugsa fyrir hinu óhugsanlega.

Hluti af því sem menn velta fyrir sér er með hvaða hætti þeir fjötrar sem eru lagðir á eignir, erlendar eignir sem svo eru skilgreindar, samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum og eftir atvikum stjórnarskránni. Frumvarpið fjallar um að leggja ákveðna fjötra á erlenda aðila sem sumir telja að fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þessar reglur sem er að finna í frumvarpinu mæla fyrir um að töluvert mismunandi leiðir eru fyrir annars vegar erlenda aðila og hins vegar innlenda aðila, hvort sem þeir eru raunverulegir eigendur eða hvort þeir hafa einfaldlega ráðstöfunarrétt yfir því fjármagni. Miðað við þær forsendur munu þær ráðstafanir sem frumvarpið gerir ráð fyrir ekki bara koma niður á erlendum aðilum sem teljast eigendur aflandskrónueigna vegna þess að hinir raunverulegu eigendur geta bæði verið innlendir eða erlendir.

Virðulegi forseti. Þetta er áréttað í athugasemdum, mig minnir við 2. gr. frumvarpsins, og maður velti fyrir sér af hverju verið er að árétta það af hálfu höfunda frumvarpsins. Ég tel að það sé vegna þess að þeir sjá fram á að ef kemur til málarekstrar fyrir dómstólum út af því hvort hugsanlega sé þarna sneitt að stjórnarskrárvörðum rétti þeirra sem fara með vörslu fjárins eða eiga það, þá skipti það máli að geta sýnt fram á það að í þeim hópi eru bæði erlendir menn og innlendir. Með þeim hætti er hægt að sýna fram á að ekki er um mismunun að ræða. Það er þetta sem ég held að sé á bak við hugsun frumvarpshöfunda. Það er þess vegna, hv. þm. Brynjar Níelsson, sem ég tel að það sé ekki þannig að 14. gr. með öllum þeim heimildum sem þar er að finna falli af himnum ofan. Ég held að hún sé bókstaflega sett þarna inn með þeim skorðum sem við henni eru síðan reistar í 15. gr. og 16. gr. til að gera Seðlabankanum kleift að upplýsa a) um hversu hátt hlutfall innlendra aðila er í þessum hópi og b) hugsanlega hversu háar upphæðirnar það eru sem þeir hafa yfir að ráða. Þetta eru staðreyndir sem ég tel miðað við rekstur íslenskra dómsmála, jafnvel fyrir erlendum dómstólum, geta skipt verulega miklu máli.

Það var einfaldlega það sem ég vildi koma hér að því að við hv. þm. Brynjar Níelsson höfum verið það skuggalega sammála um margt sem lýtur að frumvarpinu að mér þykir rétt að draga fram eitt tiltekið atriði, sem ég tel eigi að síður lykilatriði, sem við erum ósammála um. Nú kann vel að vera að hægt sé að sýna fram á að þetta sé öðruvísi vaxið, en þetta er eina skýringin sem ég finn á því að hin róttæka heimild um upplýsingagjöf sé komin í frumvarpið í 14. gr. Það er mjög erfitt að skilja til hvers á annars að nota þær heimildir. Þetta er áréttað örlítið betur í nefndarálitinu þar sem segir bókstaflega að Seðlabankinn hafi heimildir til þess að krefja þá sem leysa eignir sínar út með þessum hætti um upplýsingar um hverjir eru eigendurnir, raunverulegir eigendur.

Ég tek líka eftir að í einni málsgrein þessa ákvæðis er talað um að Seðlabankinn geti einnig í krafti þess ákvæðis krafið viðkomandi upplýsinga um aðra aðila. Og ég tel að þar sé verið akkúrat að hugsa fyrir því sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kallaði spagettífélög og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði að mjög erfitt væri að lesa sig eftir til að ná upplýsingum um eignarhald. Hér er það kristaltært sett niður að Seðlabankinn getur farið ansi langt. Við allar aðrar aðstæður hefði ég talið að þarna væru menn ef til vill komnir handan þeirrar markalínu sem stjórnarskráin og eftir atvikum lög um persónuvernd heimila, en ég hef nokkurt traust úr því að þeir ágætismenn sem ég hef nefnt í kvöld hafa lýst því yfir mjög skýrt að það sé þeirra skoðun, þótt sumir þeirra hefðu viljað hafa orðalagið öðruvísi, að þetta sé í lagi gagnvart stjórnarskránni.

Herra forseti. Ég tel að með þessum gerningi sé verið að lesa sig enn lengra eftir þeirri keðju sem menn skilgreindu fyrir nokkrum árum og kom fyrst fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2011 um hvernig ætti að ráðast í það að aflétta gjaldeyrishöftum. Menn hafa verið tiltölulega sammála um hvernig á að taka þessi skref. Segja má að engin snurða hafi hlaupið á þann þráð ef frá er talið sá harði ágreiningur sem kom upp innan stjórnarliðsins um hvort fara ætti hina svokölluðu gjaldþrotaleið eða fara samningaleiðina. Eins og menn muna tafði það lausn málsins um sennilega tvö ár. Vitaskuld hafði það ákveðinn kostnað í för með sér, rétt að rifja það upp af því að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason stendur hér nálægt mér og er tengdur íslensku viðskiptalífi, þó ekki væri nema í gegnum yfirgripsmikla þekkingu sína á því, að það var einmitt Viðskiptaráð sem gerði úttekt á því og mat það svo í febrúar 2014 að hvert ár sem tefðist að ganga frá lyktum þessa máls kostaði íslenskt athafnalíf 80 milljarða ári. Þau slagsmál sem urðu milli formanns Framsóknarflokksins og núverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, um þessa leið hafa kostað íslenskt samfélag 160 milljarða miðað við þann kvarða sem Viðskiptaráð bregður á þann kostnað.

Ég tel hins vegar að í þessari stöðu beri okkur að gera það sem hægt er til að vinda málinu áfram. Þess vegna hef ég sagt að það er fullkomlega eðlilegt að Samfylkingin styðji þetta mál vegna þess að hér er um tæknilega útfærslu að ræða á ákveðnum atburðum sem þarf að fara í gegnum áður en við getum farið að afnema gjaldeyrishöftin sem búið var að taka ákvörðun um áður. Þetta er partur af útboðunum sem við höfum verið að standa fyrir á síðustu þremur árum. Ég vona að það gangi vel.

En hins vegar vil ég líka segja að útfærslan sem er að finna hér, og skilgreiningin á því hvað eru aflandseignir, er góður aðdragandi að útboðinu. Við munum líka að ríkisstjórnin hafði lýst því yfir síðla síðasta árs að þetta útboð ætti að fara fram í janúar/febrúar, síðan töluðu menn um mars/apríl. Núna liggur alveg ljóst fyrir að innan mánaðar verður því lokið. Sem betur fer er umbúnaðurinn þannig að eins og ég skil málið mun það ekki hafa áhrif á lífskjör á Íslandi hvort mikil eða lítil þátttaka verður í útboðinu. Sá partur aflandskrónustabbans sem verður kyrr og leitar ekki útgöngu í gegnum útboðið verður læstur niðri um ófyrirsjáanlegan tíma og mun ekki geta fallið undir skilgreiningu á kvikum krónum og ekki geta leitt af sér nokkurn skaða í íslensku efnahagslífi. Það er kannski það sem er hinn magíski galdur við frumvarpið.