145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Eftir að hafa hlýtt á umræður hér í kvöld sýnist mér að þingheimur sé almennt nokkuð sáttur við þetta frumvarp. Sjálfum þykir mér miður að fulltrúar Pírata og Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd skyldu ekki geta verið á nefndarálitinu og finnst mér skýringarnar sem er að finna í nefndaráliti minni hlutans frekar léttvægar. Þar er meðal annars minnst á að ekki hafi verið nægilegt samráð.

Markmiðið hefur legið fyrir í langan tíma. Mönnum var almennt kunnugt um hvað væri verið að gera. Eðli máls samkvæmt er sumt svolítið tæknilegt í þessu. Það er líka mjög viðkvæmt að margir komi að slíkri vinnu því að þá er hætt við því að margt geti farið úrskeiðis vegna þess að þetta er mjög vandasamt og það er líka þess vegna sem sá tími er svona stuttur sem við höfum. Þannig að þetta á sér eðlilegar skýringar og mér finnst skýringar minni hlutans frekar léttvægar í þessu máli.

Annað sem hefur komið fram í þessari umræðu í kvöld, og líka aðeins í umræðunni í samfélaginu, er að hér sé ekki nógu langt gengið, þ.e. að taka hefði átt harðar á þessum aflandskrónueigendum. Jafnvel eru höfð stór orð um það — þó að það sé ekki gert í þingsal í kvöld, en víða úti í samfélaginu — að hér séu hrægammar sem eigi ekkert gott skilið og taka þyrfti harðar á þeim. Í því sambandi er svo mikilvægt að við áttum okkur á — það er svolítið mikill hávaði, forseti, hérna víða …

(Forseti (EKG): Í hliðarsalnum.)

— að við förum ekki lengra en við þurfum. Ef við gerum það er hætta á að þessi aðgerð standist ekki. Við verðum að átta okkur á því. Það kann líka að vera skýringin á því af hverju vinnan tók heldur lengri tíma en upphaflega var ráðgert, að menn þurftu að vanda sig. Það er samt rétt, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði, dómstólar hafa veitt löggjafanum ansi mikið svigrúm til að meta almannahagsmuni. En það þýðir samt ekki að við getum gert hvað sem er, (Gripið fram í.) af því að við segjum þetta. Við verðum alltaf að gæta að meðalhófinu, að ganga ekki lengra en ástæða er til.

Það getur vel verið að hagstæðara væri fyrir þjóðarbúið að taka enn harðar á þessu; hafa gengið 240 til 260. En aðstæður eru ekki þannig að við getum leyft okkur það. Að mínu mati eigum við ekki að ganga lengra en við þurfum. Ég skil hins vegar alveg þessi sjónarmið, en ég vil samt ítreka þetta: Við skulum aldrei ganga lengra en þörf krefur.

Aðeins var farið inn á umræðu um 14. gr. og eftirlitið. Kannski þótti mér nú merkilegast í því að hlusta á þá tvo þingmenn Pírata sem um það fjölluðu og töluðu algerlega í kross, annar vildi fá miklar upplýsingar á meðan hinn fulltrúinn hafði miklar áhyggjur af persónuvernd í því sambandi. Það er ekki sjálfgefið að allir séu sammála sem eru í sama flokki, en þetta þótti mér að vísu svolítið merkileg umræða. Varðandi 14. gr., af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist líka á hana, má nefna að þar er fyrst og fremst verið að hugsa um refsiverða háttsemi á við peningaþvætti og skipulagða hryðjuverkastarfsemi. Það þarf að hafa ákveðinn möguleika á eftirliti. Auðvitað er það þannig að við útboð sem verður getur Seðlabankinn, sem er auðvitað eðlilegt að hafi eftirlitið, krafist þessara upplýsinga. Það er mjög eðlilegt við aðstæður sem þessar.

En ég vil að lokum þakka nefndarmönnum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ekki síst fjármálaráðherra. Það hefur stundum heyrst í umræðunni að það skipti engu máli hver sé ráðherra við þessar aðstæður, þetta sé tæknilegt atriði sem sé bara unnið í Seðlabanka og fjármálaráðuneyti, en í aðgerð sem þessari þarf pólitíska forustu. Embættismenn finna ekki upp eitthvað svona. Það þarf pólitíska forustu, það þarf trausta forustu, svona gerist ekki af sjálfu sér. Það er mjög mikilvægt að ráðherra hafi forustu um verkefni af þessu tagi eins og sá ágæti ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hefur haft í mörgum öðrum málum, mjög erfiðum, flóknum málum; hann hefur kunnað að velja sér öflugt fólk til aðstoðar, verið vakinn og sofinn yfir verkefninu. Og ég vil ekki bara þakka ráðherra heldur líka þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessu starfi, lagt sig fram, lagt ýmislegt til málanna. Ég nefni hv. þm. Guðmund Steingrímsson sem fær sérstakt hrós í þetta sinn; ekki á vísan að róa að menn fái það aftur. (GStein: Ég lifi lengi á þessu.) — Þú lifir lengi á þessu, já, en þetta er hins vegar mikilvægt og ég vil minna á að ég lít svo á að frumvarpið sé mjög gott og ég er feginn því að svona mikill stuðningur sé við það.