145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[23:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eitt mikilvægasta verkefni samtímans í stjórnmálum er að afnema höft á fjármagnsflutningum á Íslandi. Hér er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt. Við erum ekki að afnema höftin núna en við erum að stíga mjög mikilvægt skref. Þetta skref hefur verið ákveðið í áætlunum sem ég held að þverpólitísk sátt hafi að mestu ríkt um um árabil. Að því leyti til kemur þetta ekki á óvart. Við erum búin að skilgreina vandann þannig að hann liggi í nokkrum stöbbum af alls konar peningum sem með einum eða öðrum hætti leita út úr hagkerfinu. Hér er tekið á aflandskrónustabbanum. Þeir sem eiga aflandskrónurnar fá að fara út með ákveðnum skilyrðum. Þegar almenningur fær að fara út verða þau skilyrði ekki sett.

Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir aðdáun minni (Forseti hringir.) á þeim hópi embættismanna í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu sem hefur um árabil unnið að þessum málum og kemur núna (Forseti hringir.) með einstaklega vel unnið, að mínu mati, frumvarp um mjög vandasamt mál. Á þessi hópur miklar þakkir skildar fyrir þetta.