145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

skráning lögheimilis.

[15:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég er viss um að ef við værum núna með hreint borð og gætum byrjað allt upp á nýtt væri ábyggilega mjög margt sem við mundum gera með öðrum hætti en við gerum í dag og eflaust mundum við hafa margt í þeim skrám og öðrum upplýsingum sem ríkið heldur saman, margar eru náttúrlega bráðnauðsynlegar, með öðrum hætti. Ég held að enginn vafi sé á því. Það er kannski dálítil frelsistilfinning fólgin í því að leyfa sér a.m.k. að hugsa í þær áttir þó að það séu kannski ytri mörk á því hvað hægt er að gera.

Ég vil líka segja um allar þær tækniframfarir sem verða að við erum alltaf pínulítið að eltast við þær, löggjafinn er alltaf aðeins á eftir. Það er erfitt að ímynda sér hlutina fyrir fram. Við erum yfirleitt í viðbragðsstöðu þegar kemur að flóknum breytingum í tækniheimum, við þekkjum það líka.

En ég skal svo sannarlega koma þeirri umræðu sem hér hefur orðið áleiðis og við sjáum hvað setur.