145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er bara rangt, sem hér er haldið fram, að boðaður sé samdráttur í framkvæmdum og rekstri á næstu fimm árum í fjármálaáætlun. Það er bara rangt. Það sem er boðað er að við getum á sama tíma greitt niður skuldir, haldið stöðugleika í landinu og aukið við frumgjöld ríkisins um allt að 10% á fimm árum.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þegar horft er á rekstur ríkisins fram í tímann þá munum við ekki oft upplifa þá tíma sem við erum að upplifa núna þar sem við getum sýnt fram á að hægt sé að skapa svigrúm fyrir þann vöxt í raungjöldum ríkisins í rekstrinum, þ.e. sem við svona í fjárlagasamhengi köllum frumgjöldin, og á sama tíma náð öðrum mikilvægum markmiðum.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þetta séu áætlanir sem endurspegli mikinn uppgang í efnahagsmálum. Það er þess vegna alrangt að hér sé ekki verið að bæta þjónustu. Það er alrangt að hér muni velferðarkerfið ekki styrkjast. Til að mynda er strax á næsta ári gert ráð fyrir að bætur fylgi, eins og lög kveða á um, launaþróun og hækki þar með kannski um í kringum 7% strax um næstu áramót. Öllu þessu er fundið svigrúm í áætluninni og mörg brýn innviðauppbyggingarmál eru þarna sömuleiðis.

Það er hins vegar rétt, sem sagt hefur verið, að uppi eru ólík sjónarmið úti í samfélaginu. Það var svo sem alveg við því að búast. Þeir eru til sem segja að þetta sé of mikil þensluáætlun. Að við eigum að draga úr útgjaldahliðinni. Þetta erum við að heyra núna síðast bæði frá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins. Svo erum við með hina, eins og t.d. Alþýðusamband Íslands, sem leggja áherslu á að menn vilji beita skattkerfunum meira til þess að ná fram (Forseti hringir.) jöfnuði.

Það voru einmitt aðilar vinnumarkaðarins sem kölluðu eftir (Forseti hringir.) þeim skattaaðgerðum sem þarna er að finna, m.a. brottfalli miðþrepsins. Vegna þess náðist gott samkomulag við aðila eins og VR.