145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er bara ósammála þeirri stefnu, sem hv. þingmaður talar oft fyrir og mér heyrist skína í hér, að við þessar aðstæður sé rétt að hækka skatta og auka opinber umsvif. Ég er bara ósammála því. Nú reynir á, þegar við höfum sett lög um opinber fjármál, hvort þingið með sveitarfélögunum er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að viðhalda stöðugleika á Íslandi.

Hér er núna 1,6% verðbólga. Við viljum sjá vexti Seðlabankans koma niður þannig að vextir á lánum til heimila og fyrirtækja í landinu haldi áfram að lækka. Þá er úrslitastund í þeim skilningi að ef menn stíga fram á sviðið og segja: Við ætlum að nota góðærið til að stórauka umsvif ríkisins, til að setja meira peningamagn í umferð, og við ætlum að taka handargagni ýmsa skattstofna í þeim tilgangi, þá er alveg augljóst að við erum að bæta á þensluna, við erum að vinna gegn því að vextir lækki og hér verður áframhaldandi þensla. Þess vegna er í þessari áætlun boðað að við ætlum að halda aftur af okkur. Á meðan atvinnulífið er mjög umsvifamikið í nýrri fjárfestingu þá ætlum við að halda aftur af opinberri fjárfestingu (Forseti hringir.) vegna þess að það er einfaldlega nauðsyn. Og svo hafna ég alfarið kenningum, hvort sem þær koma frá Noregi eða öðrum, um að skattalækkanir séu óréttlát leið eða óhagkvæm, við erum að lækka skatta til að létta undir með fólki og fyrirtækjum.