145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki illa til málefna þessa flugvallar, reyndar ekki neitt. En mig langaði að nýta tækifærið og benda á að þegar hafa þrjár þingsályktunartillögur um millilandaflug verið lagðar fram á þessu þingi af hv. þingmönnum. Því langaði mig að impra aðeins á því að það virðist sem fullur vilji sé til þess meðal þingmanna að búa vel um flugvallamálin almennt, ekki einungis innan lands heldur einnig um millilandaflugið.

Ég nefni þingsályktunartillögu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, sem flutti þingsályktunartillögu um millilandaflug um Vestmannaeyjaflugvöll og Ísafjarðarflugvöll. Hv. þm. Kristján L. Möller lagði fram þingsályktunartillögu um millilandaflug um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lagði fram þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Þetta eru allt mál sem ég hygg að við ættum að skoða heildstætt í ljósi aukins ferðamannastraums og þeirra mörgu tækifæra sem er að finna í þeim málaflokki.

En aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir að bjóða upp á þessa mjög svo fræðandi umræðu.