145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þessa umræðu. Umræða um flugvelli á landsbyggðinni er mjög mikilvæg. Húsavík er dæmi um að með því að fá stuðning heimafólks, þ.e. verkalýðsskrifstofunnar, til að fara af stað með niðurgreitt flug þá hafa íbúar svæðisins nýtt sér það. Fram undan er mikil uppbygging og augljóst að líklega verður enn frekari og meiri nýting á vellinum. Það skiptir því miklu máli að vel sé um hann búið. Þessar 150 millj. kr. — ég vona að þær dugi til til þess að leysa þann vanda sem vellinum er búinn.

Við þurfum líka að horfa á fleiri flugvelli í okkar kjördæmi til að nýta fjármuni vel og með skynsemi að leiðarljósi, m.a. flugvöllinn í Neskaupsstað. Það væri skynsamlegt að lagfæra hann þannig að hægt væri að beina sjúkraflugi þangað í staðinn fyrir að keyra alltaf upp á Egilsstaði með sjúklinga fram og til baka.

Ég fagna því að einhverjir peningar eru komnir í þetta og ég vona að þeir dugi fyrir þessu.