145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum sem tóku þátt í umræðum fyrir þátttökuna. Það sem ég vil segja við spurningunni er þetta: 30 m tjörubundið grús, það er völlurinn en síðan var þetta spurning um öryggissvæðið. Það er í dag 7,5 m hvorum megin. Þegar ný brautarljós verða sett upp þá veit ég ekki hvort það er í 3 m fjarlægð frá þannig að öryggissvæðið verði 6 m eða í 5 m fjarlægð svo að öryggissvæðið verði 10; ég fæ misvísandi upplýsingar um það. En alla vega er þrengingin meiri en þetta. Það verður líka að hafa í huga, virðulegi forseti, að snjóruðningur spilar inn í, að losna við ruðninga, það spilar inn í þetta atriði.

Ég fagna því mjög sem verið er að gera, annars vegar hvað varðar klæðninguna, sem var mjög brýnt, og eins með flugbrautarljósin, niðursetningu þeirra um öryggissvæðið sem verður. Í þetta eru 200 millj. kr.

Ég vil enn og aftur gera fjarlægðarvitann og hæðarmælinn að umtalsefni; ég held að þetta sé fjórða þingið sem ég geri það að umtalsefni. Ráðherrann svaraði því áðan. Og bara til að segja það alveg skýrt, vegna þess að hér hafa þingmenn rætt um það, að GPS-búnaðurinn sem verið er að tala um er í flugvélunum í dag. En það kemur ekki í staðinn fyrir fjarlægðarmælinn og hallamælinn, það er grundvallaratriðið. Þessar flugvélar eru með þetta í dag en samt er þessi takmörkun úr 680 fetum í 300, við skulum hafa það í huga.

Um leið og ég fagna því sem verið er að gera vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. innanríkisráðherra — ef kosningum verður flýtt kann að vera að þetta verði í síðasta skipti sem ég spyr um Húsavíkurflugvöll: Er ekki gulltryggt að þegar klæðningin og flugbrautarljósin verða komin upp, þ.e. á þessu ári, verða 50–70 millj. kr. veittar í þau tæki (Forseti hringir.) sem vantar?

Það er grundvallaratriði, það er rétt sem kom fram, að tækin voru tekin niður að hluta, tekin í varahluti. Ég get bætt einni spurningu við, hæstv. forseti: Getur verið að svona tæki séu til dæmis að losna í Keflavík, tæki sem hugsanlega væri hægt að nota á völlum úti á landi?