145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[15:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Metaneldsneyti er unnt að framleiða úr öllu lífrænu efni á yfirborði jarðar. Víða um heim er metan framleitt í sérstökum verksmiðjum úr lífrænum úrgangi frá heimilum, landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi. Hér er því um að ræða góða nýtingu og mjög sjálfbæra hringrás. Leifar úr þessu framleiðsluferli eru svo nýttar í aðrar afurðir, svo sem áburð.

Í MS-verkefni, sem gert var við Landbúnaðarháskóla Íslands, kom meðal annars fram að gæði íslenskrar kúamykju til metanframleiðslu væru mikil ef tekið væri mið af erlendum niðurstöðum, en til að ná þeirri framleiðslugetu þyrfti marga kúabændur til. Árið 2006 voru aðeins um 60 metanbílar í notkun á höfuðborgarsvæðinu en þeim hefur farið fjölgandi og eru nú á annað hundrað skráðir hér á landi. Ríkið hefur fellt niður vörugjald af bílum sem ganga fyrir metani til þess að ýta undir notkun þeirra og því má tala um að þarna sé mjög gott tækifæri til að leggja meiri áherslu á þá notkun.

Í ágúst 2014 var haldin ráðstefna hér á landi um lífrænt eldsneyti og kom þá meðal annars fram hjá erlendum fræðimönnum hvernig hægt væri að vinna metan úr blöndu af mykju og grasi. Þess efnis er einmitt fyrirspurn mín. Mig langar að beina þeim spurningum til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hversu mörg fyrirtæki starfi við framleiðslu metans hér á landi, hversu margir einstaklingar starfi við þá atvinnu og hversu margir af þeim búi á lögbýlum hér á landi; hvaða lög gildi um framleiðslu metans á lögbýlum og hvaða gjöld ríkið innheimti af slíkri framleiðslu og hvort mótuð hafi verið stefna um aukna framleiðslu metans hér á landi. Og ef svo er, hverjir séu möguleikar lögbýla samkvæmt henni.

Á þingi 2010–2011 var lögð fram þverfagleg þingsályktunartillaga um metanframleiðslu þar sem meðal annars var ályktað að fela þáverandi ríkisstjórn að beita sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu í landinu og leita eftir samstarfi við sveitarfélög, einstaklinga og lögaðila í því skyni.

Fyrirspurn mín beinist aðallega að því hversu langt við séum komin í metanframleiðslu hér á landi og hverjir annmarkar séu fyrir einstaklinga á lögbýlum sem eru í þeirri framleiðslu eða vilja fara út í hana.