145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er góð og þörf umræða. Ég hef velt því upp í tengslum við umræðu um búvörusamninginn að þetta hefði átt að vera eitt af því sem taka hefði átt inn í umræðuna varðandi orkuskipti í landbúnaði og vera þá með einhverja hvata í þeim efnum. Þar er metan ofarlega á blaði. Eins nefndi hv. þm. Þórunn Egilsdóttir rafstöðvar til sveita. Allt eru það möguleikar. Það er mjög mikilvægt að horfa til þess hvað verið er að gera annars staðar á Norðurlöndunum varðandi nýtingu á metani. Æskilegt væri að fleiri bæir hér á landi sameinuðust um að nýta metan. Eins og nefnt hefur verið er tilraun í gangi í Hraungerði í Flóa fyrir austan fjall með notkun á metani. Það væri alveg tilvalið fyrir stjórnvöld að vinna áfram með Landbúnaðarháskólanum varðandi rannsóknir og með (Forseti hringir.) bændum, að þróa hugmyndir varðandi nýtingu metans til sveita á tæki og tól og tengja búvörusamningnum með jákvæðum hætti.