145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[16:09]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu; hún hefur verið fróðleg. Ég er reiðubúin, og ráðuneytið, til að vinna þetta mál áfram. Í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað verður það gert í samstarfi við önnur ráðuneyti. Umhverfisráðuneytið er augljóslega samstarfsaðili í þessu en einnig er starfsbróðir minn í atvinnuvegaráðuneytinu, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með augljóst hlutverk.

Þessi mál eru á fleygiferð; það eru gríðarlegar framfarir og tækninýjungar. Við höfum með þessari áætlun, sem ég mun leggja fram innan skamms tíma, sett okkur metnaðarfull markmið. Ég get nefnt sem dæmi að hvað varðar fiskiskipaflotann okkar þá erum við að fara af stað, í samvinnu við Sjávarklasann og Íslenska nýorku, með hugmyndasamkeppni um vistvæn skip. Verður fróðlegt að sjá hver þátttakan verður í því. Það er verið að vinna að þessu í nýsköpunargeiranum, á vettvangi stjórnvalda, á samstarfsvettvangnum Grænu orkunni og í fræðasamfélaginu öllu, að finna leiðir til þess að gera okkur sjálfbærari með eldsneyti og gera okkur kleift að nota innlenda og umhverfisvænni orkugjafa.

Ég mun taka þetta mál áfram og þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu hér. Ég vonast til að við getum í sameiningu látið hluti fara að gerast þarna.