145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

flugþróunarsjóður.

636. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hér hafa kvatt sér hljóðs. Beint millilandaflug skiptir máli og ekki síður í sjálfu sér ásættanlegt innanlandsflug svo ég taki það inn í þessa umræðu. Beina millilandaflugið mundi líka bæta aðstæður alþjóðastarfsins, t.d. við Háskólann á Akureyri og sjúkrahúsin. Það er mjög margt undir, ekki bara ferðamenn. Í núinu er fyrst og fremst verið að hugsa um að nýta innviðina betur og dreifa álaginu, en þetta eykur líka lífsgæði heimamanna. Fyrir okkur sem búum á þessu svæði er skynsamlegt í alla staði að geta flogið beint frá annað hvort Akureyri eða Egilsstöðum, ekki bara út frá atvinnu, þ.e. varðandi vinnutap, eða með því að auka vistsporið okkar með því að ferðast innan lands suður til Keflavíkur. Þetta skiptir töluvert miklu máli.

Í góðri skýrslu sem skrifuð var af félaga mínum Edward Huijbens og fleirum frá Rannsóknamiðstöð ferðamála er mjög ítarlega farið yfir m.a. Norðausturkjördæmið, þ.e. frá Siglufirði að Djúpavogi og Norðurland vestra tekið inn í þetta líka, það er búið að gera einar fjórar svona skýrslur, og talað um að eftirspurnin á heimamarkaði sé eftir rúmlega 93.000 flugsætum að því gefnu að það sem hér er undir og er talið þokkalega hóflegt megi áætla að verði nýtt. Möguleg eftirspurn heimamarkaðar væri í kringum 23.000 sæti, ef við færum mjög neðarlega, að fljúga til Kaupmannahafnar eins og hér er sagt, að fjórðungur landsmanna fari þangað. Þetta skiptir (Forseti hringir.) máli fyrir heimafólkið og það skiptir máli fyrir hagkerfið í þessum risavöxnu kjördæmum, t.d. Norðausturkjördæmi þar sem þessir vellir eru, og fyrir hagkerfið skiptir þetta gríðarlega miklu máli varðandi það að ná fram beinu flugi.